Siamese
Helstu einkenni
- Þyngd: Frá ca. 3-6 kg.
- Feldur: Stuttur og fíngerður.
- Litur: Colourpoint, bicolour og mitted. Blá augu.
- Hárlos: Frekar mikið.
- Skapgerð: Mjög blíðir og góðir.
- Líftími: 11-15 ár
Þegar fram liðu stundir fóru ræktendur að gera alls kyns tilraunir í ræktuninni eins og að nota heillita húsketti í ræktunina til að fá fram fleiri litaafbrigði, en í fyrstu var einungis eitt litaafbrigði og það var Seal Point (svartgríma). Fljótlega urðu litaafbrigðin fleiri og brátt var svo komið að öll litaafbrigði sem þekkt eru í dag voru orðin til. Þegar þar var komið í sögunni fóru ræktendur að reyna að breyta kettinum enn frekar. Þeir leituðust við að gera hann rennilegri eins og þeim fannst sóma köttum af kóngum bornir og svo fór að sú stefna varð ofan á. Í dag er Síamskötturinn því orðinn með afbrigðum háfættur, langur, grannvaxinn og liðlegur á alla kanta. Þessi tilhneiging kom einnig fram í höfuðlaginu, það varð grennra, trýnið lengdist og eyrun stækkuðu, þ.e. þetta þríhyrningslag sem orðið er eitt aðaleinkenni tegundarinnar í dag varð ráðandi. Síamskettir eru mjög vinsæl kattategund um allan heim.
Skapgerð þeirra er mjög skemmtileg, þeir eru ræðnir, háværir og mjög fjörmiklir kettir. Þeir þurfa á miklum félagsskap eigenda sinna að halda og þola illa einveru. Síamskötturinn er langur, háfættur og grannvaxinn með langt og mjótt skott og langan og grannan háls. Höfuðið er þríhyrningslaga, trýnið langt og mjókkar fram, eyrun stór og sitja neðarlega á höfðinu og undirstrika þannig lengd höfuðsins og þríhyrningslagið. Augun eiga að vera í meðallagi stór, skásett, möndlulaga og skærblá.
Saga Siamese
Síamskötturinn er ein af fáum tegundum katta sem geta talist upprunalegar. Síamskettirnir hafa verið þekktir í mörg hundruð ár og eru handrit sem fundust í Bangkok því til sönnunar. Þessi handrit eru talin vera frá því kringum 1350 og þar er að finna myndir af köttum sem bera litamunstur Síamskattanna eins og við þekkjum þá í dag. Í textanum í einu af þessum handritum, Kattaljóðum, er margoft minnst á þessa ketti og þeim lýst í smáatriðum. Þar er meðal annars að finna lýsingu á skapgerð þeirra og ber hún mikinn keim af þeirri skapgerð sem er einkennandi fyrir stofninn í dag.
Næstelstu heimildir um þessa ketti koma frá miðhluta Rússlands og eru frá því árið 1793. Myndirnar sýna langa og granna ketti og litamunstrið er mjög líkt því sem við þekkjum hér í okkar norræna loftslagi, þ.e. að kettirnir eru dekkri á búkinn en þó með mjög vel afmarkaðan maska í andliti, á fótum og skotti.
Það er ekki vitað nákvæmlega hvenær fyrstu kettirnir af þessari tegund komu til hins vestræna heims, en þeir fyrstu sem komu opinberlega fram, svo vitað sé með vissu, voru þeir Pho og Mio sem sýndir voru í Crystal Palace í London árið 1885. Þessir kettir komu til Englands árið áður og voru gjöf frá breska ræðismanninum í Bangkok til systur hans í London. Þó eru til heimildir um að svona kettir hafi verið sýndir í London árið 1871, og var þeim lýst í dagblaði einu í London sem "ónáttúrulegu afbrigði katta."
Í lok níunda áratugar síðustu aldar var ræktun á Síamsköttum með miklum blóma í Englandi. Það var svo árið 1892 að ræktunarstaðall fyrir Síamsketti var skrifaður í Englandi og síðan endurskoðaður 10 árum seinna. Myndir frá þessum tíma sýna að kettirnir voru með mun styttra trýni en nú og höfuðlag allt mun kringlóttara, líkt og er á húsköttum. Einnig var búkurinn allur mun styttri og kubbslegri.