Sphynx

Sphynx köttur

Helstu einkenni

  • Þyngd: 2 - 4kg
  • Feldur: Hárlausir
  • Litur: Allur skalinn. Ekki nein sérstök munstur.
  • Hárlos: Ekkert, enda engin hár.
  • Skapgerð: Blíðir og góðir, eru mjög kelnir.
  • Líftími: 8-14 ár.

Sphynx kettir eru “hárlausir” eða það að segja eru ekki með feld. Örlítil hár eru þó til staðar og loðbrúskar hér og þar eins og til dæmis á enda á skotti, eyrum, tám  og við kynfæri. Þessi hár þykja fullkomlega eðlileg.

Þeir koma í öllum litum og eru öll litaafbrigði viðurkennd. Við viðkomu eru þeir eins og heitt, mjúkt flauel og er það ekkert í líkingu við stamt, kalt skinn eins og margir eflaust halda. Þeir eru alveg einstaklega kelnir og félagslyndir og vernda heimilið og húsbóndann sinn með kjafti og klóm.

Nauðsynlegt er að baða Sphynxinn 3 - 4 sinnum í mánuði. Á feldlausum líkamanum myndast olía sem verður að þrífa af reglulega. Mjög auðvelt er að baða þá þar sem þeir eru vandir á baðferðir frá unga aldri. Best er að nota barnasjampó en alltaf er hægt að bæta öðru útí, svona uppá lykt sem hver og einn eigandi óskar. Svo tekur nánast engann tíma að þurrka þá.

Sphynix kettlingur

Algeng spurning: “Verður þeim ekki kalt?”  Jú þeim verður kalt. Ef það er kalt fyrir þig að þá er kalt fyrir þá. En þeir eru klárir kettir og sækja mikið í hita.  Þeir hjúfra sig undir teppi, uppá sjónvarpinu, útí í glugga í sólinni, á ofninum, við tölvuna og jafnvel á kólnandi hellum.  Eða bara þar sem notalegt er að liggja og hafa það huggulegt. En helst þó í faðmi eigandans.

Þeir elska önnur dýr og börn eða bara alla sem sýna þeim einhverja athygli, því það er það sem þeir vilja mest af.

Saga Sphynx kattanna

Sphynx tegundin hefur komið við sögu hér og þar í gegnum aldirnar. Vitað er til þess að hún hafi skotið upp kollinum t.d. í Bandaríkjunum, Mexikó, Rússlandi og fleiri stöðum, en þó í litlum mæli. Tegundin hefur verið í ræktun frá því að götulæða nokkur í Toronto, Kanada árið 1966 eignaðist hárlausa kettlinga, úr því goti kom einn fress og tvær læður. Læðurnar tvær voru sendar til Hollands og var þar maður,  Dr. Hugo Hernandez sem tók við þeim og er hann því einn fyrsti ræktandi Sphynx tegundarinnar sem er þekktur í dag.

Í fyrstu var þeim blandað við Devon Rex og byrjaði ræktunin út frá því. Ræktendur hafa þó ræktað Sphynxinn við aðrar loðnar tegundir til að byggja stofninn upp. Þykja þeir alveg einstaklega heilbrigðir og með lága sjúkdómatíðni.

Sphynxinn er ekki viðurkenndur af öllum kattafélögum en er þó viðurkenndur á Íslandi, víða í Evrópu og Bandaríkjunum. Í Þýskalandi og Hollandi hafa stofnanir á vegum ríkisins reynt að stöðva ræktun þeirra og vilja meina að Sphynx tegundin sé með gölluð gen.