Ragdoll
Helstu einkenni
- Þyngd: Frá ca. 4,5-7kg, högnar geta orðið allt að 9kg.
- Feldur: Mikill og millisíður. Mjög mjúk hár.
- Litur: Colourpoint, bicolour og mitted. Blá augu.
- Hárlos: Frekar mikið.
- Skapgerð: Mjög blíðir og góðir.
- Líftími: 12-17 ár
Það sérstaka við þetta kyn þykir þessi óvenjulegu viðbrögð sem þeir sýna þegar þeir eru teknir upp. Þegar haldið er á þeim slaka þeir svo fullkomlega á að þeir minna helst á tuskudúkku, en af því draga þeir nafn sitt Ragdoll. Feldurinn er millisíður og silkimjúkur. Litaafbrigði hans eru nokkuð mörg. Einna algengust eru colourpoint, bicolour og mitted. Eitt af einkennum hans eru bláu augun. Högninn verður mjög stór og getur vegið allt að 9 kílóum, en læðan er mun fíngerðari.
Ragdoll er einstaklega ljúfur, rólegur og góður félagi. Þeir eru mjög leikglaðir og fljótir að læra. Það er auðvelt að kenna þeim ýmsar kúnstir, eins og að setjast við skipun eða að sækja dótið sitt, svo eitthvað sé nefnt. Þeir eru hlýjir og vingjarnlegir að eðlisfari og vilja vera með þér öllum stundum. Þeir þurfa mikla athygli og njóta þess að liggja í fangi eigandans. Ragdollinn er kjörinn fjölskylduköttur sem semur vel við önnur dýr.
Saga Ragdoll katta
Ragdoll á rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna. Árið 1960 paraði kona að nafni Ann Baker heilögum birman saman við hvíta síðhærða læðu sem hét Josephine. Með kettlingunum sem undan þeim komu hélt hún áfram að þróa kynið og bætti meðal annars inní ræktunina Burmese og Persum. Það var ekki fyrr en árið 1993 sem TCFA (The Cat Fanciers Association) viðurkenndi Ragdoll sem nýja tegund og árið 2000 fékk hún fulla viðurkenningu. Þetta er því tiltölulega ný kattartegund sem hefur þó notið mikilla vinsælda á skömmum tíma.