Ættbækur og skráningar

Það getur reynst mörgum flókið að sækja um ættbækur í fyrsta sinn. Hér reynum við að auðvelda nýjum ræktendum sem lengra komnum ferlið með greinagóðri lýsingu á hverju þarf að skila inn. Hægt er að nálgast allar umsóknir inná vef Kynjakatta.

Að senda inn umsókn 

Umsókn ásamt öllum pappírum nefndum hér fyrir neðan skal senda til skráningarstjóra í pósti. Neðst á umsóknareyðublöðunum er að finna nýjasta heimilisfang skráningarstjóra hverju sinni, því er mikilvægt að nota alltaf nýjasta eyðublaðið.

Skráðir eigendur skrifa undir

Fyrsta sem þarf að gæta að er hver eða hverjir eru skráðir fyrir ræktunarnafninu, séu fleiri en einn er mikilvægt að báðir skrifi undir alla pappíra, umsóknin er ekki gild öðruvísi.

Algengt er að læðan sé ekki skráð á réttann eiganda, þ.e. eiganda ræktunarnafnsins, gæta verður þess að ganga frá eigendaskiptum áður en lengra er haldið. Eigandi ræktunarnafns getur eingöngu ræktað undan læðum skráðum á sitt nafn.

Ef vafi liggur á hver er skráður fyrir hverjum ketti er alltaf hægt að senda fyrirspurn á skraningarstjori@kynjakettir.is til að ganga úr skugga um það.

Skráður eigandi högnans þarf einnig að skrifa undir pörunarvottorð, því er gott að ganga frá því á sama tíma og pörunin á sér stað.

Ræktandi þarf að greiða félagsgjöld

Skráður eigandi ræktunarnafns (allir) þarf að vera gildur félagsmaður Kynjakatta og hafa greitt félagsgjaldið sama ár og gotið er. Skráður eigandi högnans þarf einnig að hafa greitt félagsgjald sama ár og gotið er, þessu þarf að ganga frá áður en lengra er haldið í umsóknarferlinu.

Vinsamlegast athugið hvort ekki liggi fyrir greiðsluseðill í heimabanka fyrir félagsgjaldi áður en millifært er, það auðveldar umsýslu félagsgjalda töluvert séu greiðsluseðlar greiddir en ekki millifært.

Skírteini frá rannsóknarstofu fyrir Maine Coon og Ragdoll ketti

Ræktendur Maine Coon og Ragdoll katta þurfa að skila inn skírteini frá rannsóknarstofu sem vottar fyrir að DNA próf fyrir MyBPC3 geninu (HCM - Hypertropic Cardiomyopathy) hafi verið framkvæmt, nema að sannað sé að báðir foreldrar dýrsins séu ekki berar af MyBPC3. Á skírteininu þarf að koma fram örmerki ræktunardýrsins. Skírteinið þarf að berast með umsókn um ættbækur.

Skírteini frá rannsóknarstofu fyrir Norska skógarketti

Ræktendur Norskra skógarkatta þurfa að skila inn skírteini frá rannsóknarstofu sem vottar fyrir að DNA próf fyrir GBE-1 geninu (GSD IV – glycogen storage diease) hafi verið framkvæmt, nema að sannað sé að báðir foreldrar dýrsins eru ekki berar af GSD IV. Á skírteininu þarf að koma fram örmerki ræktunardýrsins. Skírteinið þarf að berast með umsókn um ættbækur.

Vottorð frá dýralækni

Sé verið að para ketti saman í fyrsta skipti þarf að skila inn vottorðum frá dýralæknum. Læður þurfa kviðslitvottorð frá dýralæknum og högnar kviðslitsvottorð og pungvottorð. Þetta þarf að berast á sama tíma og umsókn um ættbækur. Sértu ekki viss hvort þessi vottorð liggi fyrir er hægt að senda fyrirspurn á netfangið skraningarstjori@kynjakettir.is.

Kvittun fyrir greiðslu

Útprentuð kvittun fyrir greiðslu á ættbókunum þarf að vera í sama umslagi og hin gögnin, fylgi hún ekki með er umsóknin ekki gild. Mikilvægt er að þegar millifært er að sett sé í skýringu ,,Ættbækur”. Ekki millifæra önnur gjöld með þessari greiðslu.

Ættbækur fyrir sýningu

Ættbókarumsókn og pörunarvottorð, vottorð frá dýralækni og kvittun fyrir greiðslu þarf að vera póstlagt saman til skráningarstjóra í síðasta lagi á lokadegi skráningarfrests fyrir sýningar. Athugið að póststimpillinn gildir. Ef eitthvað af þessum gögnum vantar, er ekki hægt að tryggja að kettlingar úr goti komist á sýningar.

 

Tímarammi fyrir skráningu

Sem eigandi ræktunarnafns og sem félagsmaður samþykkir þú að fara eftir reglum Kynjakatta og í þeim er skýrt tekið fram að umsókn um ættbækur verði að gerast fyrir fjögra mánaða aldur kettlinganna, annað er brot á reglum félagsins og sekt bætist við ættbókarverðið.

Til að vera tímanlega er ekkert mál að senda inn öll gögn og greiðslu áður en kettlingarnir eru örmerktir, ættbækurnar eru þá á bið hjá skráningarstjórum þar til örmerkin berast þeim í tölvupósti. Athugið að þetta á bæði við um greiðslu og gögn, ef aðeins annað berst fyrir frest telst umsóknin ekki móttekin fyrr en síðari hlutinn berst og þá skal greiða sektina sökum brota á lögum félagsins.

Afhending kettlinga

Í reglum Kynjakatta og FIFe er tekið fram að öllum köttum verður að fylgja ættbók til að sanna uppruna kattarins, því er ekki leyfilegt að halda eftir ættbókum þar til kaupandi uppfyllir skilyrði. Hinsvegar er leyfilegt að fresta eigendaskiptum þar til uppfyllt hafa skilyrði í samning, án eigendaskipta getur viðkomandi kaupandi ekki sýnt köttinn né ættbókafært undan dýrinu. Þetta á einnig við þegar verið er að koma eldra dýri á heimili, ættbókin skal alltaf fylgja dýrinu, alveg sama hver skráður eigandi er.

Kettlinga má ekki afhennda fyrr en eftir 12 vikna aldur, fram að því verða þeir að vera hjá læðunni og systkynum. Kettlingar skulu afhendast fullbólusettir (hér er auðvitað átt við miðað við aldur, kettir eru bólusettir allt sitt líf og verða því aldrei ,,full" bólusettir).

Hvaða kettlinga á að ættbókafæra

Sem félagsmaður samþykkir þú reglur Kynjakatta og allir kettlingar undan hreinræktuðum foreldrum í þinni eigu verður að ættbókafæra. Annað er alvarlegt brot á reglum félagsins.

Að velja nöfn á kettlinga

Þú ræður hvað kettlingar með þínu ræktunarnafni heita svo lengi sem nafnið fer ekki yfir 35 bókstafi, þar með talið ræktunarnafn og bil milli nafna.

Vinsælt er hjá ræktendum að nefna gotin í bókstafa stíl, þá í fyrsta gotinu þeirra heita allir kettlingarnir nöfnum sem byrja á bókstafnum A, öðru gotinu bókstafnum B. Þetta er alls ekki skylda en engu að síður ágætis lausn.