Persian

Helstu einkenni

  • Þyngd: Frá ca. 5,4-7kg.
  • Feldur: Mikill, þykkur, síður og fíngerður.
  • Litur: Allir litir og munstur.
  • Hárlos: Mjög mikið. Þarf að kemba þá vel og baða.
  • Skapgerð: Mjög blíðir og góðir.
  • Líftími: 10-15 ár

Persinn á að vera frekar meðalstór til stór köttur, stuttur á búkinn, með stutta þykka fætur og miklar loppur. Höfuð á að vera hringlaga, breitt, eyru lítil og eiga að sitja neðarlega á höfði, nefið á að vera ofarlega, þannig að efri brún nefs beri við neðra augnlok. Augun eiga að vera stór, kringlótt, opin og kopar- eða orangelit. Feldur persans er eitt af hans aðalsmerkjum. Háralag persans gerir það að verkum að hann er inniköttur og útivera getur orðið honum að fjörtjóni. Háragerðin er þannig að undirfeldurinn, þ.e. dúnhárin, eru stærstur hluti feldsins, en yfirhár eru í minnihluta. Þetta gerir það verkum að feldurinn þolir illa að blotna útivið, því hann hleypur mjög auðveldlega í hnúta. Feldhirða á persum er mikið verk, þó það sé mjög mismunandi milli einstakra katta, en ef vel á að vera þarf að eyða einhverjum tíma í feldhirðu daglega. Þetta kann að hljóma sem mikil vinna en hún er vel þess virði og er létt verk ef eigandi kann til verka og vanrækir ekki að fylgjast með því að feldurinn sé í góðu ásigkomulagi.

Saga Persanna

Persinn er afkomandi síðhærðra katta sem riddarar Evrópu komu með heim frá Austurlöndum úr krossferðum sínum. Þessir síðhærðu kettir voru gefnir kóngafólki og náðu miklum vinsældum hjá frönsku hirðinni strax í lok sextándu aldar. Þegar fram liðu stundir bárust þessir kettir yfir til Bretlandseyja þar sem segja má að ræktun þessarar tegundar hafi byrjað.

Árið 1899 voru meira en 100 bláir persar skráðir á sýningu í Crystal Palace. Svörtu persarnir eru samt taldir vera grunnurinn í ræktun persanna en ekki er vitað með vissu hvenær markviss ræktun þeirra hófst, en þó er talið nokkuð öruggt að þeir hafi verið orðnir nokkuð algengir upp úr 1800. Út frá heillitu persunum hafa síðan verið ræktuð allskyns litaafbrigði og vitað er með vissu að smoke persinn var kominn fram árið 1860, silfurpersar voru fyrst skráðir á sýningar árið 1894, hvíti persinn er fyrst sýndur árið 1903 og svo má lengi telja. Upphaf allra litaafbrigða persans má rekja til Bretlands. Þó svo menn deili um uppruna einstakra lita, þá er vitað með vissu að Bretar voru brautryðjendur í allri ræktun og voru leiðandi ræktendur fram yfir miðja þessa öld, þegar Bandaríkjamenn tóku frumkvæði í ræktun og urðu leiðandi í mótun nútímaútlits flestra kattategunda. Persinn er vinsælasta kattategundin í heiminum í dag. Það ræðst ekki eingöngu af sérstæðu útliti þeirra heldur ekki síður af skapgerðinni. Þetta eru með eindæmum rólyndir kettir og framkoma þeirra eins og sæmir sönnum hefðarköttum. Þeir eru venjulega yfirvegaðir og láta ekki aðra ketti eða jafnvel aðrar tegundir ferfættra heimilisdýra raska ró sinni.

Colourpoint persar

Colorpoint / Himalya persiÞað var árið 1924 í Svíþjóð að fyrsti Colourpoint persinn leit dagsins ljós. Hann var afrakstur ræktunartilrauna nokkurra háskólastúdenta sem voru að gera tilraunir í erfðafræði og voru að reyna að sanna að síðhærður feldur og síamslitirnir væru tilkomnir vegna víkjandi gena hjá köttum. Ekki var tekið mark á niðurstöðum þeirra en þær áttu þó eftir að hafa áhrif á heim kattanna þó svo síðar yrði.

Hin eiginlega ræktun hófst ekki fyrr en um 10 árum síðar í Bandaríkjunum. Það var árið 1935 að tveimur læknanemum í Harvard háskóla tókst að rækta fyrsta Colourpoint persann og fékk hann nafnið Debutant. Tilraunir þeirra voru ekki vegna áhuga á kattaræktun heldur vegna áhuga þeirra á erfðafræði og var þessi tilraun hluti af doktorsritgerð þeirra.

Það var síðan í Bretlandi sem ræktunartilraunir hófust af alvöru og tilgangurinn að búa til nýja tegund katta. Það var kattadómarinn Brian Sterling-Webb sem varð brautryðjandi í því starfi. Eðlilega tóku tilraunirnar mörg ár og margar kynslóðir katta komu og fóru áður en rétta útlitið og rétti liturinn hafði náðst. Það sem sóst var eftir var síamsmunstrið á kött sem var að öllu öðru leyti persneskur í útliti. Ræktunartilraunirnar fóru einnig fram í öðrum löndum, í Þýskalandi fékk nýja tegundin nafnið Khmer og í Bandaríkjunum Himalaya. Þjóðverjarnir tóku seinna upp nafnið Colourpoint eins og Bretarnir.

Það var ekki fyrr en eftir seinni heimstyrjöldina að Colourpoint persarnir fóru að öðlast frægð og áhugi fyrir þeim fór verulega að aukast. Breska kattaræktarsambandið GCCF viðurkenndi Colourpoint persa, eða colourpoint longhair eins og þeir kölluðu þá, til keppni á sýningum árið 1954 og ári síðar fékk tegundin viðurkenningu hjá FIFE. Það var síðan tveimur árum síðar að Colourpoint eða Himalayan eins og Bandaríkjamenn kalla þá voru viðurkenndir í Bandaríkjunum og fyrstu kettirnir sem sýndir voru á sýningu hjá CFA mættu á sýningu í nóvember 1957. Þeir vöktu gífurlega hrifningu og voru viðurkenndir til keppni á sýningum nokkrum dögum síðar á fundi framkvæmdastjórnar CFA, með fimmtán atkvæðum gegn einu. Ræktunarstaðall sem saminn var af Ben Borretts var samþykktur og ræktun Colourpoint persa hófst fyrir alvöru.

Einkenni Colourpoint

Colourpoint er fyrst og fremst persi og á að líta út sem slíkur, frekar stór og þéttvaxinn, með stuttan búk og fætur, þykkar loppur, stutt og mikið skott, kringlótt höfuð, lágt sett eyru sem eru frekar lítil, stór kringlótt augu og stutt nef. Þessu hafa ræktendur Colourpoint náð með miklum ágætum. Allir litir sem fyrirfinnast á síamsköttum finnast einnig hjá Coloupoint. Litasamsetningin á að vera sterk, þ.e. skýr skil eiga að vera á milli litar á fótum, andliti, skotti og eyrum og litar á búk. Augun eiga að vera með sem dýpstum bláum lit en umfram allt þá á augnliturinn að vera tærblár.

Silfur og golden persar

Golden Chinchilla PersiÁ Íslandi líkt og í mörgum öðrum löndum eru Chinchilla Silver, Chinchilla Golden, Shaded Silver og Shaded Golden kettir orðnir stærsti litastofn persa. Chinchilla Silver og Shaded Silver eru með fyrstu tegundunum sem maðurinn bjó til, þeir hlutu viðurkenningu á kattasýningu í Crystal Palace árið 1894. Chinchilla Golden og Shaded Golden komu mun seinna til sögunnar, þeir urðu til vegna ræktunartilrauna silfurkattaræktenda sem vildu bæta týpu í stofnum sínum með því að bæta heillitum köttum í ræktunarlínur sínar. Golden kötturinn hefur verið til í silfurræktun allt frá árinu 1920 en það var álitið óæskilegt að fá slíka kettlinga í gotum þar sem menn héldu að um litagalla væri að ræða.

Á sjöunda áratugnum vaknaði hinsvegar áhugi fyrir golden litnum og árið 1970 var hann viðurkenndur hjá Bandaríkjamönnum. Velgengni þeirra í ræktun á golden vakti síðan áhuga Evrópubúans á þeim og í dag eru þeir á meðal vinsælustu kattategunda í heiminum. Erfitt er að sameina fallegan lit og góða týpu í þessari tegund. Þessir erfiðleikar við að ná fram og halda persaútlitinu (flatt andlit, stuttur búkur, stutt skott og stuttir þykkir fætur) varð til þess að silfurræktendur sóttu um að þessi tegund fengi sérstakan sess í kattaræktun sem tegund aðskilin frá persum. Ræktendur tegundarinnar færðu sterk rök fyrir þessu en samt var því hafnað. Síðan þá hafa ræktendur unnið mikið starf og náð miklum árangri í að bæta lit og týpu.

Einkenni silfur og golden persa

Eitt af helstu sérkennum Silfur og Golden persa er maskarinn í kringum augun og nef. Þetta gerir það verkum að grænleit augun skína skærar og rauðleitt nefið verður mjög áberandi. Silfur og Goldenkettir eiga að vera líflegir og ræðnir kettir sem þurfa mikinn félagsskap manna eða annarra katta. Ef þessar þarfir eru ekki uppfylltar er hætta á að þeir verði einrænir og forðist fólk af bestu getu. Til þessa verða eigendur slíkra katta að taka tillit.