Bengal
Helstu einkenni
- Þyngd: 3,5 - 7kg
- Feldur: Stutthærðir
- Litur: ýmsir litir með doppóttu eða marmara munstri.
- Hárlos: Frekar lítið.
- Skapgerð: Blíðir og góðir, mjög forvitnir.
- Líftími: 10-16 ár.
Bengal kettir eru ástríkir, blíðlyndir og greindir. Þeir eru forvitnir og skemmtilegir og sumir njóta þess að leika sér með dót í vatni og fara í bað með eigendum sínum. Þeir njóta þess að vera með bæði fullorðnum og börnum og aðlagast yfirleitt vel að öðrum gæludýrum. Auðvelt er að venja þá á að ganga í ól og fara í göngutúra. Allir kettir hafa þó sinn persónuleika og getur hver og einn kettlingur í sama goti verið sérstakur. Annar er kannski athygglissjúkur á meðan hinn kýs að vera í rólegheitum. Bengal kettir eru mjög gáfaðir og líkjast örlítið hundum í hegðun, en hægt er að kenna þeim ýmis brögð ef viljinn er fyrir hendi.
Það sem einkennir Bengal kettina er munstrið sem þeir bera, það er annað hvort doppótt eða svokallað marmara. Doppótta gerðin er ríkjandi yfir marmaramunstrinu. Báðir foreldrar þurfa að bera gen fyrir marmaramunstri til að kettlingur komi fram með slíkt munstur. Vegna áhrifa frá blettagenum villta frumskógarkattarins, sem notaður var við sköpun bengalkatta (og er reyndar enn verið að nota til að fá meira af villtu blettatígursútliti) ber meira og meira á doppóttum bengulum með þriðja litnum inni í doppunni. Þetta er kallað að bengalinn sýni rósettur. Sömu villigen valda því að marmaramunstrið flýtur skáhallt eða lárétt aftur eftir búknum, í stað þess að mynda áberandi hring (bullseye pattern) fyrir miðjum búk. Auk þess opnast breiðar og bylgjóttar rendur marmaramunstursins og í ljós kemur þriðji liturinn, sem myndar oft sérkennilega hvirfla. Marmaramunstrið á bengal mætti segja að sé afbökun á “blotched tabby” munstri húskattanna.
Bengalkettir eru til í ýmsum litum en algengastir og þeir sem viðurkenndir eru af flestum kattaræktarsamböndum eru svartdoppótt (lítur oftast út eins og brúndoppótt), svartmarmara, snjóbengal með síamsgeni og blá augu, snjóbengal með burmageni og gul eða græn augu og millistigið snjóbengal sem kallaður er minnklitaður (er með eitt síams og eitt burmagen) og ljósblá til grænleit augu. Erlendis eru til alveg svartir bengalar (Pantherette), bládoppóttir og fleiri litir, en þeir hafa í fæstum kattaræktarfélögum verið viðurkenndir. Auk þess eru til silfurlitir bengalar og þeim fer fjölgandi. Unnið er að því að fá silfur í bengal viðurkennt. Á silfurbengal er grunnliturinn silfurhvítur og munstrið alveg svart.
Saga Bengal katta
Nokkrar sögur eru uppi um hvaðan Bengal nafnið kemur en nafnið var skrásett árið 1974 af Bill Engal. Sumir hafa talið að hann hafi skýrt tegundina útfrá nafninu sínu B. Engal en aðrir segja að nafnið komi frá Asíska hlébarða kettinum, en vísindaheitið hans er Felis bengalensis.
Bengal kettir eru blanda af Asíska hlébarðanum (þeir voru seldir í gæludýraverslunum á sjötta og sjöunda áratugnum) og American shorthair (amerískir stutthærðir). Kattarræktandi frá Kaliforníu að nafni Jean Sudgen, var meðal þeirra fyrstu til að búa til þessa nýju gerð, en það var reyndar alveg óvart. Hún hafði eignast Asískan hlébarða kött og til að honum leiddist ekki leyfði hún svarta húskettinum sínum að umgangast hann líka, en viti menn, úr því komu kettlingar. Jean hélt eftir einni doppóttri læðunni og paraði hana aftur við föður sinn, en úr því goti komu bæði doppóttir og heillitir kettlingar. Þetta var árið 1963, en vegna þess að Jean varð ekkja þar stuttu eftir gerði hún ekkert meira út frá þessu.
Það var síðan um áratugi síðar að Dr. Wilard Centerwall, barnalæknir og gena líffræðingur í Davis háskólanum í Kaliforníu byrjaði ræktunarprógram til þess að rannsaka náttúrulegt ónæmi hlébarða katta við hvítblæði.
Jean var nýgift aftur og bar nú eftirnafnið Mill, hún bjó í Covina, nærri Los Angeles. Hún fékk 8 kettlinga frá ræktunarprógrammi Dr. Centerwall, allt læður og nýtti þær sem nýjan stofn fyrir áframhaldandi Bengal verkefnið sitt. Hún ætlaði sér að halda áfram að blanda saman tegundum til að sjá hvort hún fengi villta hlébarða útlitið í samblandi við hina vinalegu skapgerð húskattarins.
Læðunum var blandað saman við rauðan húskött með brúnum rósettum sem hún hafði fundið í dýragarði í Indlandi og einnig brúndoppóttum tabby sem hún fann í katta skýli í Los Angeles. En út frá þessum pörunum byrjaði stofn Bengal katta.
Nokkrir aðrir amerískir kattaræktendur prófuðu sig líka áfram með þessari blöndun og var þar Dr. Gregg Kent sem paraði saman Asískan hlébarða högna og Egypska Mau læðu. Aðrar tegundir sem voru einnig prófaðar voru Ocicat, Abyssinian, Bombay og British shorthair.
Árið 1983 samþykkti TICA (The International Cat Association) Bengal sem nýja tegund og það var svo um ári síðan sem tegundin sást fyrst á kattasýningum.