Exotic

Helstu einkenni

  • Þyngd: Frá ca. 3 - 5 kg.
  • Feldur: Nokkuð þykkur og mjúkur.
  • Litur: Allir litir og munstur.
  • Hárlos: Í meðallagi.
  • Skapgerð: Blíðir, góðir og þægir.
  • Líftími: 8-15 ár


Exotic á að vera stuttur, þykkur og sterklegur köttur, bringan djúp, jafnbreiður yfir axlir og mjaðmir, með þykka og stutta fætur. Loppurnar eiga að vera kringlóttar, tærnar fimm að framan og fjórar að aftan. Höfuðið á að vera breitt, andlitið kringlótt, nefið stutt með greinilegu broti. Kinnarnar eiga að vera vel fylltar, sterklegir kjálkar og vel þroskuð og ákveðin haka. Eyrun eiga að vera lítil og broddurinn á að vera aflíðandi, þau eiga að halla fram og sitja neðarlega á höfðinu. Augun eiga að vera kringlótt, stór og nokkuð langt á milli þeirra. Skottið á að vera stutt en þó í hlutfalli við búkinn. Feldurinn á að vera miðlungssíður, mjúkur, plusskenndur og mjög þéttur þannig að hann standi nokkuð beint út frá líkamanum en liggi ekki þétt við og aldrei svo síður að hann flæði.

Saga Exotic

Exotic kötturinn er í dag að öllu leyti stutthærður persi sem kom fram við þróun persa og stutthærðra amerískra katta. Þessar paranir hófust vegna mikilla vinsælda persanna í Bandaríkjunum á miðri tuttugustu öldinni og var markmiðið að gera ameríska stutthærða köttinn líkari persanum í útliti. Það markmið fór veg allrar veraldar þegar útlit kattanna fjarlægðist sífellt útlit ameríska stutthærða kattarins og svo fór að lokum að aðskilnaður varð óumflýjanlegur.

Blóði Burmakatta var bætt í ræktunina til að gera köttinn enn sérstakari útlits og Exotic fór að taka á sig þá mynd sem á honum er í dag. Í Bretlandi var farin örlitið öðruvísi og styttri leið en þar var breski stutthærði kötturinn notaður í stað ameríska stutthærða kattarins til að búa til Exotic Shorthair. Undir leiðsögn framsækinna ræktenda öðlaðist Exotic viðurkenningu sem sérstök kattategund á seinni hluta sjöunda áratugarins og nýtur mikillar virðingar í Bandaríkjunum í dag. Feldhirðan er í lágmarki ef miðað er við persana og svo hafa þeir þessa yndislegu skapgerð persanna, eru rólegir og yfirvegaðir og fylgjast með lífinu af stóískri ró. Litbrigði Exotic kattanna eru því sem næst óteljandi enda eru þeir ræktaðir í öllum litum sem persar eru ræktaðir í. Þar á meðal allir heilir litir, s.s. svart, rautt, blátt og súkkulaði, svo og Colourpoint, ásamt silfurlitnum. Ennfremur eru til bröndóttir, bicolour, harlequin og van litaafbrigði.