Balinese

Helstu einkenni

  • Þyngd: 2,5 - 5kg
  • Feldur: Langur, fíngerður og silkimjúkur.
  • Litur: Colourpoint, bicolour og mitted. Blá augu.
  • Hárlos: Miðlungs.
  • Skapgerð: Mjög blíðir og góðir.
  • Líftími: 9-15 ár.

Balinese kettir eru að öllu leyti Síamskettir að undanskildum feldinum. Þeir eiga að hafa sama vaxtarlag og sömu liti en feldurinn á að vera langur en á þó alls ekki að líkjast feldi persanna. Hárin eiga að vera löng og liggja þétt að líkamanum, en undirfeldur á ekki að vera til staðar, því undirfeldur lyftir undir yfirhárin og gerir köttinn loðnari í útliti. Javanese kettirnir voru ekki afrakstur stökkbreytinga, heldur sáu ræktendur Balinese katta að ef hægt væri að fá viðurkennda síðahærða Síamsketti þá hlyti að vera hægt að fá viðurkennda síðhærða Orientalketti. Ræktendur tóku sig til og ræktuðu saman Balineseketti og Oriental og fljótlega komu fram á sjónarsviðið Javanesekettir. Skapgerð Balinese og Javanese er nákvæmlega sú sama og hjá Síams og Oriental. Þeir eru forvitnir og mjög krefjandi í sambúð sinni við fólk, þó svo sumir telji þá heldur blíðari og ekki alveg eins háværa. Hvað ræktun áhrærir þá er leyfilegt að para Balinese og Javanese með Síams- og Orientalköttum enda teljast allar þessar tegundir til sama ræktunarflokks, líkt og persar og Exotic teljast til sama ræktunarflokks.

Saga Bailinese

Í augum sumra eru Balinese og Javanese kettirnir hámark glæsileikans í kattaræktinni. Þessir kettir eru að öllu leyti eins og Síams- og Orientalkettir í líkamsbyggingu, langir, háfættir og grannir kettir sem eru til í sömu litum með skásett augu. Það eina sem skilur Balinese frá Síams og Javanese frá Oriental er að feldur Balinese og Javanese kattanna er langur, þveröfugt við Síams- og Orientalkettina sem eru mjög snöggir. Balinese kettir komu fyrst fram í Síamsgotum á fimmta áratug þessarar aldar.

Í fyrstu héldu menn að um gallaða ketti væri að ræða eins og svo oft gerist þegar nýjar tegundir eru fyrst að koma fram á sjónarsviðið. Á sama tíma og aðrir ræktendur unnu af fullum krafti að því að fá fram persa í síamslitunum þá stökk Balinese kötturinn fullskapaður fram á sjónarsviðið í Bandaríkjunum. Balinese var ekki afrakstur ræktunartilrauna heldur var um að ræða stökkbreytingu í feldgerð. Í fyrstu voru þessir kettir gefnir sem gæludýr og taldir einskis virði þangað til kona að nafni Marian Dorsey tók sig til við að rækta þetta afbrigði áfram. Hún fékk sér til hjálpar fleiri ræktendur og brátt voru Balinese kettir orðnir mjög vinsælir í Bandaríkjunum. Vinsældirnar héldu áfram að aukast og árið 1970 fengu Balinese viðurkenningu til að keppa á sýningum í Bandaríkjunum. Frá Bandaríkjunum barst þessi tegund til Evrópu og náði góðri fótfestu meðal ræktenda, en kattaræktarfélög voru treg til að veita þessum ketti viðurkenningu. Árið 1983 kom þó loks að því að FIFE veitti Balinese viðurkenningu sína og síðan þá hafa vinsældir þessa kattar aukist jafnt og þétt þó svo að langt sé í land með það að þeir verði eins vinsælir og Síamskettimir.