Maine Coon
Helstu einkenni
- Þyngd: Frá ca. 6-11kg, fer eftir kyni.
- Feldur: Mikill og síður. Mjög mjúk hár.
- Litur: Allur skalinn. Ekki nein sérstök munstur.
- Hárlos: Frekar mikið, þarf að kemba þá vel og baða.
- Skapgerð: Mjög blíðir og góðir.
- Líftími: 9-15 ár
Það sem einkennir Maine Coon ketti er eina helst hvað þeir eru stórir, síðhærðir, oft með mikinn makka (kraga), loðið skott og svokallaðar tufdir á eyrunum. En þeir eru einstaklega blíðir og góðir og ekki að ástæðulausu að þeir séu oft kallaðir „The Gentle Giants“.
Vaxtartími Maine Coon katta er á bilinu 2-5 ár en þeir eru heldur lengur að taka út fullan vöxt miðað við venjulega húsketti sem oftast ná fullri stærð á fyrsta árinu sínu. Maine Coon eru oft ansi breiðleitir í framan og virka grimmir, en maður finnur varla blíðari ketti sem semur auðveldlega við alla fjölskyldumeðlimi. Þeir eru einstakelga vinalegir og eru mikið fyrir að vera með heimilisfólkinu. Flestir Maine Coon kettir elska vatn, ólíkt öðrum tegundum sem eru dauðhræddir við vatnið þá er oft eins og þeim finnist ekkert skemmtilegra en að sulla í vatni.
Saga Maine Coon katta
Best er að byrja að taka fram að uppruni Maine Coon katta er hvergi skrásettur og því ekki fullvitaður, en ýmsar getgátur eru um upprunann. Hér koma nokkur dæmi:
Blanda af þvottabirni og ketti
Menn sáu kettina leika sér í lækjar sprænum í Maine Bandaríkjunum og ályktuð því að þeir hlytu að vera blanda af ketti og þvottabirni (raccoon) þar sem köttum er almennt illa við vatn en þvottabirnir þekktir fyrir hegðunina sem þessir kettir sýndu.
Frá Tyrkneskum Angóruköttum
María Antonetta, drottning Frakklands sem var tekin af lífi 1793, hún reyndi að flyja aftökuna með aðstoðar skipstjóranum Samuel Clough. Voru dýrmætustu eignir hennar fluttar um borð skip hans, þar á meðal sex uppáhalds Tyrknesku angúrukettirnir hennar. Þó svo að hún hafi sjálf ekki komist til Bandaríkjanna þá eiga gæludýrin hennar að hafa komist heil höldnu að ströndum Wiscasset, í Maine þar sem þeir blönduðust öðrum stutthærðum köttum og mynduðu Maine Coon tegundina sem við þekkjum í dag.
Breskir skipskettir
Enskur skipstjóri að nafni Charles Coon er sagður hafa haft loðna ketti um borð í skipi sínu og í hvert sinn sem skipið stoppaði í höfn í Nýja Englandi fóru kettirnir hans á stjá og mökuðust við villi kettina í Maine. Þegar síðhærðir kettlingar fóru að birtast í gotum hjá villi köttum voru þeir alltaf kallaðir „Coon's cat's“ eða kettirnir hans Coon.
Húskettir og villikettir
Maine Coon er blendingur af húsketti og viltum gaupum, þetta gæti skýrt tufsurnar á eyrunum á Maine Coon köttum.
Maine Coon og Víkingarnir
Ýmsir víkingar heimsóttu Vínland á elleftu öld og var Leifur Eiríkson fyrstur þeirra. Talið er að þeir hafi verið með loðna ketti með sér á skipunum sem hafi blandast viltum heimilisköttum í Bandaríkjunum og búið til Maine Coon tegundina. Þetta er ekki talið ólíklegt þar sem Maine Coon er ekkert ólíkur Norska skógarkettinum sem er talin hafa svipaða sögu.
Skráð saga
En sé horft fram hjá uppruna tegundarinnar og farið beint í söguna, þá kom tegundinn fyrst fram á sjónarsviðið í ritverki árið 1861 eftir F.R. Pierce. Þar skrifaði hann um svarta og hvíta Maine Coon köttinn sinn sem hét „Captain Jenks of the Horse marines“, og þess má geta að Pierce skrifaði einnig grein um tegundina í bókina „Frances Simpson's the book of the cat“ árið 1903.
Í kringum 1860 var tegudin orðin þekkt í Maine og héldu bændur „Maine State Champion Coon Cat“ keppni. Byrjun árs 1895 voru tólf Maine Coon kettir skráðir á kattasýningu í Boston Bandaríkjunum og þann 8. maí sama ár var haldin fyrsta Norður Ameríska kattasýningin á Madison Squere Garden í New York þar sem Maine Coon læðan Cosey tók þátt og vann silfur hálsól og medalíu sem „Best In Show" (BIS).
Snemma á 20. öldinni fóru síðhærðum framandi kattartegundum að fjölga í Norður Ameríku sem gerði það að verkum að vinsældir Maine Coon kattanna dvínuðu all verulega. Það varð svo gróft að tegundin var talin formlega útdauð 1950, en augljóslega voru þær yfirlýsingar ýktar. Ræktendur tóku sig þá til og viðhéldu tegundinni markvist og með mikilli vinnu fékkst tegundinn viðurkennd í CFA (Cat Fanciers' Association) þann 1. maí 1975.
Maine Coon voru svo samþykktir í Evrópu 1982 af FIFé, en það er félagið sem Kynjakettir, Kattaræktarfélag Íslands er aðili að. En fyrstu Maine Coon kettirnir voru fluttir til Evrópu 1976 af Connie Condit (Heidi Ho) til að taka þátt í sýningu í Þýskalandi.
Þegar farið var að byggja upp Maine Coon stofninn voru skráðir inn vel yfir 100 stofn kettir, góður grunnur til að byggja tegund á. Þekktustu stofnkettirnir eru Andy Katt of Heidi Ho & Bridget katt of Heidi Ho. Þegar barnabarnið þeirra Sonkey Bill of Heidi Ho var síðan paraður við læðuna Tanstaafl Polly Adeline gerðist nokkuð í fyrsta skipti, allir kettlingarnir voru nákvæmlega eins og voru með ýkta grófa maine coon útlitið, nánast eins og klón. Þetta þótti sérstaklega eftirsóknarvert, svo eftirsóknarvert að þau voru pöruð saman sjö sinnum og ræktað undan öllum 17 afkæmunum. Ræktendur fóru þá að hunsa hina stofn kettina sem voru ekki með eins ýkt útlit og gleymdu sér. Þetta þýðir að lang flestir Maine Coon kettir í dag eru með mikla skyldleika ræktun aftarlega í ættbókinni sinni og eru paraðir aftur og aftur við aðra með sömu skyldleikaræktun í sinni ættbók. Einföld Mendelsk erfðafræði segir okkur að svona tryggjum við að leyndir erfðafræðilegir gallar haldist í línunum kynslóð eftir kynslóð.
Hins vegar eru ræktendur en þann dag í dag að rækta frá hinum 90 stofnköttunum en þó er hægt er að fá ketti með heilbrigðari bakgrunn, en oft eru þeir því miður ekki með eins ýkt útlit og „Best In Show" kettirnir sem við sjáum á FIFé sýningum. Hinsvegar falla þeir inn í standard tegundarinnar og eru 100% Maine Coon. Með mikilli vinnu og nákvæmni eru þessir kettir orðnir grófari og flottari en þeir voru í byrjun en jafnframt með mjög lítinn skyldleika á bak við sig.
Á PawPeds heimasíðunni er góður ættbóka gagnagrunnur sem heldur ítarlega utan um alla Maine Coon ketti í heiminum. Þegar ketti er flett upp er hægt að smella á „Foundation“ til að sjá hvaða stofnkettir eru á bakvið dýrið og „clones“ til að sjá skyldleikaræktun og hversu skylt það er Heidi Ho klónunum. Íslenskum köttum fer fjölgandi með ári hverju í Maine Coon gagnagrunninum en ef þú lumar á ættbók sem er ekki í gagnagrunninum þá getur þú sent ljósrit til skráningarstjórans:
Mariëlle de Wit
Bellemeerstraat 43
2493 XP Den Haag
The Netherlands
En nýjar ættbækur eru yfirleitt skráðar inn í grunninn í byrjun hvers mánaðar.
Til að fræðast meira um sögu Maine Coon tegundarinnar er hægt að nálgast þær á ensku með því að skoða Maine Coon arfleiðs heimasíðu PawPeds.
Einnig er vert að benda á að Maine Coon Klúbbur Íslands starfar innan Kynjakatta og er skráður ræktunarklúbbur.