Gátlisti fyrir sýningar

Næstu sýningar: 8. og 9. mars 2025.
Opnað fyrir skráningar: janúar 2025
Lokadagur skráningar: Þegar 120 kettir hafa verið skráðir, eða eigi síðar en
8. febrúar.

Skreytingarþema vorsýninga er Hollywood.

Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga áður en farið er með kött á sýningu. Hér á eftir verður farið yfir alla þætti sem þurfa að vera klárir til geta verið með.

Einungis félagsmenn sem greitt hafa félagsgjöld geta sýnt ketti á sýningum Kynjakatta.
Nánar um félagsaðild.

Skráning á sýningar

  • Til að skrá kött á sýningar notið rafrænt skráningareyðublað sem fyllt er út á vefnum.
  • Aðeins er hægt að greiða sýningargjöld með greiðslukorti og skráning ekki gild fyrr en gengið hefur verið frá greiðslu.
  • Einungis skráður eigandi má skrá köttinn sinn á sýningar Kynjakatta (sjá meira um þetta í kaflanum Eigandaskipti hér fyrir neðan.)

Sjá nánar um verð inná verðskrá félagsins. Verðskráin miðast við sýningarhelgina. Ekkert aukagjald er tekið þó sýnt sé báða dagana.

Athugið að sýningargjald fæst ekki endurgreitt ef hætt er við að sýna, nema að skráning sé dregin til baka fyrir lokadag skráningarfrests.

Skráðir kettir

Allir sem eru með skráða ketti ættu að fá formlega staðfestingu senda í tölvupósti þess efnis ca.14 dögum eftir að send hefur verið inn umsókn. Ef þú hefur ekki fengið staðfestingu, sendu tölvupóst á formann félagsins.

Þegar mætt er á sýningu þarf að hafa með sér ættbók kattarins, örmerkisskráningu og heilsufarsbók með skráðum bólusetningum.

Ættbækur

Allir hreinræktaðir kettir sem skráðir eru á sýningarnar þurfa að hafa ættbók.
Leiðbeiningar fyrir ræktendur um ættbækur.

Bólusetningar

Athugið að reglur um bólusetningar breyttust 01.01.2008.

  • Kettir á aldrinum 3-12 mánaða skulu hafa fengið tvær upphafsbólusetningar gegn kattafári og kattainflúensu með u.þ.b. 3-4 vikna millibili, þá síðari í síðasta lagi 15 dögum fyrir sýningu. Mælt er með að kettlingar fái fyrstu bólusetningu á aldrinum 8-12 vikna.
  • Kettir 12 mánaða og eldri þurfa að vera með vottorð frá dýralækni um að bólusetning kattarins sé í gildi. Kettir skulu bólusettir í síðasta lagi 15 dögum fyrir sýningu. Ef ekki kemur fram gildistími bólusetningar í vottorðinu þá má ekki vera liðið meira en 1 ár frá síðustu bólusetningu.
  • Ef kettir eru bólusettir gegn hundaæði (Rabies) skulu að minnsta kosti liðnir 5 mánuðir frá bólusetningu.

Eigandaskipti

Sjá umsókn: Tilkynning um eigendaskipti.
Einungis skráður eigandi og félagsmaður Kynjakatta getur sýnt kettling/kött. Liggi vafi á hvort búið sé að ganga frá eigendaskiptum á kettinum skal senda tölvupóst á formann Kynjakatta og fá staðfest hver sé skráður eigandi. Komi í ljós að ræktandi eða fyrri eigandi sé skráður fyrir kettinum þarf viðkomandi að undirrita eigendaskiptablað og framselja köttinn.
Eigandaskiptum verður að skila inn í síðasta lagi á lokadegi skráningarfrests til að dýrin séu rétt skráð í sýningaskrá.

Sýna húskött

Sjá umsókn um skráningarskírteini fyrir húskött.
Allir húskettir sem á að sýna þurfa að vera með skráningarskírteini.
Með umsókn um skírteinið verður að fylgja vottorð gefið út af dýralækni sem staðfestir að búið sé að framkvæma ófrjósemisaðgerð á kettinum. Þetta þarf að vera póstlagt saman til skráningarstjóra í síðasta lagi á lokadegi skráningarfrests fyrir sýningar. Athugið að póststimpillinn gildir. Skráningarstjóri gefur síðan út númer fyrir húsköttinn og fyrst þá er hægt að skrá hann á sýninguna.

Dýralæknaskoðun á sýningu

  • Allir kettir sem skráðir eru á sýningu þurfa að gangast í gegnum dýralæknaskoðun.
  • Skoðunin fer fram á laugardegi frá kl. 7:30 til 9:00. (Athugið þetta á líka við um ketti sem aðeins eru sýndir á sunnudegi.)
  • Sýna þarf ættbók, örmerkisskráningu og bólusetningarvottorð við komu í dýralæknaskoðunina. Vanti eitthvað af þessu þrennu verður köttum vísað frá án endurgreiðslu sýningargjalda.

Sýningarbúr

Mæta þarf með eigið sýningarbúr. Búrið ætti að vera minnst 60cm á lengd, en ekki mikið dýpra en 60cm þar sem borðin sem þau standa á eru rétt rúmlega það. Best er að innrétta búrið með skjólgardínum til að skýla kettinum frá áreiti annara katta og sýnenda, þó verður að vera sýnilegt inní búrið fyrir sýningargesti. Flestar gæludýrabúðir selja slík búr.

Auglýsingar

Þeir sem vilja auglýsa í fréttabréfi/sýningarskrá eða gefa verðlaun er bent á að hafa samband við formann auglýsingarnefndar á netfangið auglysing@kynjakettir.is.

Ef skráðir eru minnst 10 kettir með sama ræktunarnafni eða ef sami eigandi sýnir 10 ketti eða fleiri fær ræktunin ókeypis nafnspjaldaauglýsingu í sýningarskrá. Sýnandinn verður að senda póst og benda á að hann á rétt á þessu, til að tryggja að þessi auglýsing birtist.

Aðstoð, Upplýsingar & Störf

Óskað er eftir áhugasömum félagsmönnum og öðrum sem vilja taka að sér störf og aðstoða á sýningunni. Manna þarf dómþjónastöður og önnur störf.

Áhugasamir um að vera dómþjónn hafið samband við yfirdómþjón.

Áhugasamir sem vilja hjálpa til við uppsetningu sýningarinnar eða vinna á sýningunni hafið samband við sýningarstjóra.

---

Ef óskað er eftir nánari upplýsingum eða aðstoð við að fylla út skráningareyðublöð, er velkomið að hafa samband við ritara félagsins.

 

Sýningareglur Kynjakatta og FIFe gilda á sýningunum.