Er hægt að eiga kött þrátt fyrir kattaofnæmi?

Elskar þú ketti en ert með ofnæmi fyrir þeim? Góðu fréttirnar eru þær að það er vel hægt að halda ofnæminu í skefjum svo lengi sem það er ekki lífshættulegt ofnæmi.

Maine Coon kettirnir Louis og Rósa
Maine Coon kettirnir Louis og Rósa

Milljónir manna um allan heim eiga við þetta sama vandamál að etja og því miður halda sumir að um leið og þeir hafa verið greindir þurfi þeir að losa sig við gæludýrið sitt. Sem betur fer eru til margar lausnir sem hægt er að láta reyna á áður en slík ákvörðun er tekin. En í mörgum tilvikum eru heilsukostir þess að eiga gæludýr fleiri heldur en gallarnir við ofnæmið.

Það kæmi eflaust mörgum á óvart að vita hversu margir kattaeigendur eru með ofnæmi en tekst að halda því niðri með ýmsum ráðum.

Ef þú heldur að þú sért með ofnæmi er mikilvægt að leita læknis og fá ofnæmispróf. Það er ekki endilega víst að þú sért með ofnæmi fyrir köttum þó að nýr köttur sé á heimilinu. Ef kötturinn er útiköttur má vel vera að hann komi inn með einhverskonar frjókorn, myglu eða aðra ofnæmisvaka  sem þú vissir ekki að þú værir með ofnæmi fyrir.

Hvað er það sem veldur þessum ofnæmisviðbrögðum?

Algengustu ofnæmisvakarnir eru glýkóprótein sem kallast Fel d 1 sem koma frá hálskirtlum katta og fyrir finnast í munnvatni þeirra. Einnig eru þessi prótein að finna í kattaþvagi og því ekki óalgengt að þeir sem eru með ofnæmi finni fyrir óþægindum þegar þeir þrífa kattasandinn.Þegar köttur sleikir sig berast þessi prótein úr munnvatninu á feldin. Því eru margir sem halda að það séu hárin sem þeir eru með ofnæmi fyrir. En próteinið loðir við hárin og dauðar húðflögur sem síðan þyrlast í loftið og loða við föt, rúmföt, veggi og fleira.

Ofnæmisviðbrögð geta verið mjög ólík frá einum einstaklingi til annars. Dæmigerð einkenni eru hnerri, kláði, nefstífla og/eða nefrennsli. Einnig getur komið roði í húð eftir kattarklór. Verri einkenni geta verið ofsakláði, útbrot á brjósti og andliti, rauð augu og/eða kláði í augu og lífshættulegur astmi. Einkennin geta orðið verri hjá einstaklingi sem kemst í snertingu við aðra ofnæmisvaka sem hann hefur ofnæmi fyrir eins og til dæmis frjókorn, rykmaura, sígarettureyk eða myglu.

Devon rex kötturinn Cassini
Devon rex kötturinn Cassini

Valda allir kettir jafn miklu ofnæmi?

Það er mjög einstaklingsbundið hvort og hversu miklum ofnæmiseinkennum köttur getur valdið. Sumir kettir geta valdið meiri einkennum en aðrir þrátt fyrir að vera af sömu tegund. Eins og áður sagði fer það ekki eftir feldi kattarins, heldur próteinögnum úr munnvatni þeirra. Oft hefur heyrst að síðhærðir kettir valdi minna ofnæmi en þeir snögghærðu, en það gæti einfaldlega verið vegna þess að þeir eru baðaðir oftar og feldurinn þar með hreinsaður betur. Hárlausir kettir valda einnig ofnæmi, því þeir sleikja sig alveg jafn mikið og kettir með feld. En þar sem engin hár eru til staðar límist próteinið við búkinn þeirra og það smitast yfir á föt og annað sem kötturinn kemur við.

Gerðar hafa verið rannsóknir á framleiðslu Fel d 1 í munnvatni katta og kom í ljós að það væri hvað minnst hjá tegundum eins og Siberian (rússneski skógarkötturinn), Devon Rex, Cornish Rex, Abyssininan, Oriental Shorthair, Balinese og fleiri snögghærðum tegundum, og þá sérstaklega hjá læðunum. Kona að nafni Margaret Lawrence í Bretlandi fann út að sirka 10% af fólki sem hefur ofnæmi myndi þola Rex tegundirnar.

Læknar á Long Island háskólasjúkrahúsinu í Brooklyn, New York, gerðu rannsókn árið 2000 á rétt rúmlega 300 manns sem áttu ketti og voru með ofnæmi. Þeir komust að því að kettir með dekkri feld væru fjórfalt líklegri til að valda ofnæmiseinkennum heldur en kettir með ljósari feld.

Samt sem áður er ekki þar með sagt að snögghærðir kettir eða kettir með ljósan feld valdi engu ofnæmi. Það er mjög persónubundið.

Hvernig er hægt að draga úr ofnæmiseinkennum?

Þegar komið er á hreint að þú sért með ofnæmi fyrir köttum en ekki einhverju öðru, er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hversu slæmt ofnæmið er. Svo lengi sem ofnæmið er ekki lífshættulegt og veldur öndunarerfiðleikum má skoða ýmis ráð til að halda því í skefjum.

Hreinlæti er númer eitt, tvö og þrjú

Hafðu þrifalegt hjá þér og ryksugaðu helst á hverjum degi til að minnka hárin á gólfunum. Notaðu ryksugu með HEPA síu. HEPA sía tryggir að rykagnir blásast ekki aftur út í loftið. Einnig er þægilegt að eiga ryksuguvélmenni sem hægt er að forrita til að fara af stað á hverjum degi meðan þú ert frá í vinnu. Forðastu að vera með húsbúnað sem hár festast auðveldlega við, eins og síðar gardínur úr bómullarefni, teppalögð gólf og sófa sem ekki er hægt að taka utan af og þvo. Leðursófar eru til dæmis tilvaldir og vera þá frekar með teppi í sófanum sem hægt er að taka og skella í þvottavélina. Viðargólf, flísar og dúkar eru ákjósanlegustu efnin til að hafa á gólfunum. Ef það er ekki möguleiki að losa sig við teppalagt gólf þarf að djúphreinsteppið helst mánaðarlega.

Lofthreinsitæki hjálpa heilmikið til

Margar gerðir eru til af lofthreinsitækjum. Hægt er að fá slíkt tæki með HEPA síu, en einnig eru til öflug minni tæki sem einungis þarf að stinga í samband og aldrei að skipta um síu. Munið að velja tæki sem hæfir stærð ykkar rýmis. Einnig geta rakatæki líka komið að góðum notum en þau fá hárin sem þyrlast um í loftinu til að leggjast niður á gólf.

Maine Coon kötturinn Hiro
Maine Coon kötturinn Hiro

Tíð böðun á köttum

Hægt er að venja flesta ketti við böðun. Vikuleg eða minnst mánaðarleg böðun ætti að hjálpa til við að halda ofnæmiseinkennum niðri. Munið bara að nota feldvörur sem eru ætlaðar gæludýrum. Spyrjist fyrir hjá dýralæknum eða fáið aðstoð í gæludýraverslunum með hvaða vörum sé mælt með að nota.

Haldið kattasandinum hreinum

Hreinsið kattasandinn að minnsta kosti einu sinni á sólarhring og fáið helst einhvern annan á heimilinu sem er ekki með ofnæmi til að hreinsa hann. Ofnæmisvakar eru í þvagi kattarins og því betra að halda sandinum nokkuð hreinum. Notið sand sem þyrlast ekki upp þegar kötturinn grefur í sandinum og berst ekki mikið með honum út á gólf

Leyfið köttinn ekki inni í svefnherbergið

Gott er að hafa eitthvað svæði þar sem kötturinn má aldrei koma inn í, og þá helst svefnherbergið. Hafið samt sem áður lofthreinsitæki þar inni líka því hárin berast jú út um allt. Til eru sængur og koddar sem eru sérstaklega ofnæmisprófuð og hrinda frá sér rykögnum og húðflögum.

Notið viðeigandi lyf

Læknirinn ykkar ætti að gefa ávísað viðeigandi lyfjum. Þau geta verið allt frá antihistamín pillum til nefúða með sterum, astma púst, augndropum eða jafnvel sprautu með ofnæmislyfjum.

Því miður er ekki hægt að koma í veg fyrir ofnæmi. Nokkrar rannsóknir hafa þó sýnt fram á að ef börn alast upp með dýr á heimilinu eigi þau síður á hættu að þróa með sér ofnæmi.

Svo lengi sem ofnæmið er ekki lífshættulegt og þú vilt geta haldið gæludýrinu þínu ætti samblanda af réttum lyfjum, daglegum þrifum, tíðum böðum og lofthreinsitæki á heimilinu að hjálpa til við að halda einkennunum niðri og gera þér kleift að búa farsældlega með gæludýrinu þínu.

Texti: Jóna Dögg Sveinbjörnsdóttir, febrúar 2015.
Birtist fyrst í fréttabréfi Kynjakatta, 1.tbl. 25.árgangur 2015.

Heimildir:
The Humane Society of USA, March 28, 2014, How to Live with Allergies and Pets,
http://www.humanesociety.org/animals/resources/tips/allergies_pets.html
Tonia Marsh, 10 Jan 2011, Hypoallergenic Cats - Do They Exist?:
http://www.cat-world.com.au/hypoallergenic-cats-do-they-exist
WebMD, Jan. 19, 2001, Black Cats May Bring More Than Bad Luck, http://pets.webmd.com/news/20010119/black-cats-may-bring-more-than-bad-luck
WebMD, May 12, 2014, Cat allergies, http://www.webmd.com/allergies/guide/cat-allergies