Gelding katta
Algengast er að bíða með að gelda högna og taka læður úr sambandi þar til þau hafa náð a.m.k. 6 mánaða aldri. Í Bandaríkjunum hafa ófrjósemisaðgerðir á kettlingum (oftast á bilinu 8 til 16 vikna) þó tíðkast í meira en 3 áratugi.
Framan af voru þetta einkum kettlingar úr ýmiss konar dýraathvörfum, en nú einnig í auknu mæli á hreinræktuðum kettlingum áður en þeir fara á ný heimili, séu þeir ekki ætlaðir til undaneldis. Á þann hátt geta ræktendur lagt sitt af mörkum til að vinna gegn offjölgun katta, en hún er víða alvarlegt vandamál.
Í Bandaríkjunum er t.d. áætlað að 4 til 15 milljónir heilbrigðra katta séu svæfðir árlega, vegna þess að það finnast ekki heimili fyrir þá. Í Kanada er svipaða sögu að segja. Þar neyðast menn í sumum dýraathvörfum til að svæfa allt að 90 prósent fullfrískra katta af því enginn vill þá. Margir ættleiddir kettir fá að eignast eitt got eða fleiri. Niðurstaðan er sú að um þriðjungur afkvæmanna fær ekki heimili. Ófrjósemisaðgerðir eru mikilvægar til að draga úr offjölgun og til að koma í veg fyrir að það þurfi að svæfa heilbrigða ketti.
Rannsóknir og stuðningur
Mörg virt samtök kanadískra og bandarískra dýralækna hafa lýst yfir stuðningi við að kettir séu geldir á unga aldri. Samt er það þversögn að ein elsta og algengasta skurðaðgerð á gæludýrum er jafnframt sú sem hvað minnst hefur verið rannsökuð. Algengast er að gelda ketti ekki fyrr en við 6 til 8 mánaða aldur.
Áður fyrr voru svæfingar ungviðisins of hættulegar. Nú hafa orðið stórstígar framfarir í þeim efnum og aðgerðir á kettlingum jafnvel hættuminni. Þar til nýlega óttuðust margir dýralæknar að kettlingum stafaði meiri hætta af ófrjósemisaðgerðum og afleiðingum þeirra, einnig af heilsukvillum síðar á ævinni heldur en eldri köttum. En margar rannsóknir hafa sýnt að þessar áhyggjur eru ekki á rökum reistar. Þvert á móti benda þær til þess að ófrjósemisaðgerðir á kettlingum:
- Dragi ekki úr vexti þeirra (Flórida háskóli, 1996).
- Auki hvorki áhættu af völdum skurðaðgerðar né svæfingar (Texas háskóli, 1997 og 2000).
- Valdi ekki alvarlegum hegðundarvandamálum (Cornell háskóli 2004; Mercer háskóli 2001).
- Auki ekki líkur á sjúkdómum í neðri hluta þvagfæra (Minnesota háskóli 1996, Texas háskóli 2000).
- Stuðli ekki að offitu (Minnesota háskóli 1996).
Viðamikil rannsókn í Cornell háskóla á meira en 1600 köttum á 11 ára tímabili leiddi í ljós að gelding kettlinga minnkar hættuna á ýmsum sjúkdómum síðar á ævinni, t.d. asma, tannholdssjúkdómum og sýkingum, samanborið við ketti sem eru geldir eftir 6 mánaða aldur. Niðurstöður rannsóknarinnar voru að ófrjósemisaðgerðir á kettlingum hafi fleiri jákvæð en neikvæð áhrif, einkum á fressum, hún dragi úr árásargirnd og þvagmerkingum.
Höfundarnir, doktorarnir Victor Spain, Janet Scarlett og Katherin Houpt bættu því við að slíkar aðgerðir á köttum yngri en fimm og hálfs mánaða valdi ekki aukinni dánártíðni né leiði til aukins heilsubrests eða hegðunarvandamála síðar á ævinni.
Hvað þarf helst að varast?
Við svæfingu og uppskurð á kettlingum þarf að sýna aðgát, því þeir hafa meiri sérþarfir en eldri dýr. Fyrst þarf að skoða þá gaumgæfilega, bólusetja og ormahreinsa, líka að losa þá við flær eða önnur sníkjudýr séu þau til staðar. Til að finna út réttan skammt af svæfingarlyfi verður að vigta kettlinga nákvæmlega, ákveðin lyf henta best þessum aldurshópi og dýralæknar vita hver þau eru.
Kettir yngri en 4 mánaða eru ekki látnir fasta lengi fyrir aðgerð, yfirleitt bara 3 til 4 klst, til að koma í veg fyrir of lágan blóðsykur. Innan við klukkustund eftir aðgerðina er þeim svo gefin matur, af
sömu ástæðu. Sé komið með got saman í geldingu er kettlingunum fyrst haldið rólegum á sama stað, því séu þeir aðskildir getur það valdið kvíða og streitu. Eftir aðgerðina er gotið svo sameinað eins
fljótt og auðið er. Gæta þarf þess vel að kettlingarnir ofkælist ekki. Oftast fá þeir svo að fara heim samdægurs, enda segja dýralæknar að þeir jafni sig fljótar og auðveldlegar en eldri kettir.
Aukin viðurkenning
Því meira sem við fræðumst um ófrjósemisaðgerðir á kettlingum, þeim mun algengari verða þær. Í dag eru þær einkum framkvæmdar á dýrum sem eru ættleidd úr dýraathvörum, en það mætti einnig hvetja eigendur annara katta að láta gelda þá fyrr en síðar. Sérstakleg eftir að búið er að bólusetja kettlingana og ormahreinsa, venjulega um 12 vikna aldur. Það kemur einnig í veg fyrir að kettir eignist got af slysni, en þeir geta orðið kynþroska allt niður í 4 mánaða aldur.
Ólafur Sturla Njálsson er einn reyndasti kattaræktandi landsins og hefur hann þetta að segja um málið:
„Ég kaus að fara milliveginn á sínum tíma. Áður var miðað við 6 mánaða aldur sem var fyrst og fremst vinnuregla dýralækna. Í Ameríku eru ræktendur að láta gelda kettlingana 10-11 vikna. Mér finnst þeir of litlir þá, of léttir.
Ég fikraði mig áfram með þetta og fann út að kettlingarnir eru nægilega tilbúnir undir þetta inngrip þegar þeir eru orðnir um 1 kg. Hjá mér eru kettlingarnir mjög misfljótir að þyngjast og ég bíð með geldingu flestra þangað til þeir eru búnir með seinni bólusetninguna 16 vikna. Þeir eru því að verða 4 mánaða þegar þeir fara frá mér á ný heimili. Ég er mjög stífur á því að láta þá ekki fyrr frá mér, þar sem þeir eru sálrænt séð ekki tilbúnir fyrir heimilisskipti fyrr en allt er orðið frágengið og vanir að lifa án mömmu sinnar.
Katrín dýralæknir á Dýraspítalanum í Víðidal geldir allar læðurnar mínar með einum litlum skurði og fjarlægir eingöngu eggjastokkana. Læðurnar eru jafnsprækar 2 tímum eftir aðgerðina og strákarnir sem fóru í geldingu samtímis. Með þessari aðferð Katrínar gat ég loksins haft stjórn á kattaræktuninni minni og komið í veg fyrir svindl. Þetta er mín leið til að koma í veg fyrir blöndun kattategunda á götunni og það er bráðnauðsynlegt að allir kattaræktendur geri þetta, einmitt til að koma í veg fyrir skemmdarverk á heiðarlegu ræktunarstarfi sínu.
Hitt er svo annað mál að dýralæknar hafa sínar skoðanir og þeir eru líka mjög misfærir í að gelda læður. Katrín er ennþá sú eina sem gerir ófrjósemisaðgerðina svona á læðunum mínum og engin vandamál hafa komið upp síðar vegna þessarar aðferðar, að fjarlægja aðeins eggjastokkana í gegnum 1 cm gat rétt neðan við bringubeinið.
Dýralæknir minn á Stuðlum við Selfoss prófaði, en treysti sér ekki til þess að gera aðgerðina aftur. Það þarf augljóslega góða þjálfun í þessa aðgerð. Mér finnst oft dýralæknar, með smádýr sem sérgrein þess vegna, vera með óskaplega ólíkar skoðanir og ólíka reynslu. Jú það er eðlilegt og svona í öllum greinum.
En vantar ekki endurmenntunarnámsskeið á þessu sviði hjá dýralæknunum? Vantar ekki að dýralæknar komi sér saman um samræmdar aðgerðir í þessum efnum til stuðnings við baráttu okkar gegn offjölgun katta og skemmdarverkum á ræktunarstarfi?“
Greinin var þýdd og stytt af: Haraldi Eiríkssyni
Höfundur: Dr. Susan Little. Júní 2005. Early-age spaying and neutering.
http://www.winnfelinehealth.org/Pages/Early_Age_Spay_Neuter.pdf
Birtist fyrst í fréttabréfi Kynjakatta, 1.tbl. 22.árgangur 2012.