Tannsjúkdómar og tannhirða hjá köttum
Tannsjúkdómar herja á ketti eins og önnur gæludýr og geta valdið þeim miklum óþægindum. Tannhirða er þeim mikilvæg ekki síður en t. d. hundum. Kettir mynda oft mikinn tannstein, sérlega á jöxlum. Í tannsteininum og í tannholdinu undir honum situr óhemju mikið af bakteríum.
Bakteríurnar senda frá sér eiturefni, svo kölluð toxin, sem valda drepi í frumum tannholdins og festingum tannana og ekki síður í beini höfuðkúpunnar og kjálkans sem tennurnar sitja í. Heilbrigt tannhold myndar eðlilega poka í kringum alla tönnina sem á ekki að vera dýpri en 0,5-1 mm. Þegar mikill tannsteinn og tannholdssýking myndast eins og að framan er nefnt, þá dýpka þessir pokar oft um marga millimetra og að lokum verður engin festing fyrir tennurnar. Þær losna og detta að lokum úr skoltum dýrsins eða það verður að taka þær. En það sem verra er, að það er mjög stutt í æðar í tannholdinu og eiga bakteríurnar því greiðan aðgang í blóðrás kattarins. Þaðan eiga bakteríurnar mjög greiðan aðgang að öllum líffærakerfum líkamans, svo sem hjarta, lifur, nýrum og vöðvum og hefur verið sýnt fram á með rannsóknum að fylgikvillar slæmrar tannhirðu eru m.a. graftarkýli í fyrrnefndum líffærum.
Feline Odontoclastic Resorbtive Lesions, skammstafað FORL
FORL er tannsjúkdómur sem hrjáir ketti og finnst einnig hjá öðrum dýrum og leynast einkennin oft undir tannsteininum.
Hægt er að kenna kettlingum og ungum köttum að tennur séu þrifnar með tannklútum eða burstaðar. Þetta þarf að gera á hverjum degi ef vel á að vera og minnka áhrifin niður í 60% ef tennurnar eru þrifnar einungis annan hvern dag. Ef ekki er hægt að þrífa tennurnar reglulega er best að koma með kisuna í tannhreinsun hjá dýralækni.
Tannsteinn virðist aukast með aldri dýrsins og þyrftu sumir kettir að koma einu sinni á ári í tannhreinsun ef vel ætti að vera. Fyrsta skrefið er að skoða tennur kattarins mjög reglulega og ekki að bíða of lengi með hreinsun ef merki eru um tannstein (sjá mynd 3).
Einkenni FORL
Einkennin eru brot eða sár í tönnunum. Með þessu fylgir yfirleitt mikil tannholdsbólga og leynist skemmdin undir. Þegar komið er við skemmdina svarar kötturinn yfirleitt harkalega og reynir að snúa hausnum frá og færa tunguna yfir tönnina. Fleiri en ein tönn geta verið skemmdar, en oftast skemmist bara ein tönn í einu.
FORL er sjúkdómur sem flokkast undir sjálfsofnæmissjúkdóm, þ.e. líkami kattarins ræðst á eigin vef, í þessu tilfelli tannbeinið. Sjúkdómurinn finnst í öllum kattategundum og er tíðni hans frá 29 til 67 af hundraði og eykst með aldri dýranna. Sjúkdómurinn sést helst í jöxlum númer 307 og 407 þ.e. fyrsta jaxli í neðri góm beggja megin.
FORL er mjög sársaukafullur sjúkdómur þar sem með eyðingu tannbeinsins opnast niður í taugarnar. Ekki er vitað hvað veldur þessu, og það eina sem hægt er að gera er að fylgjast vel með tönnunum.
Ef grunur er um FORL þarf að taka röntgenmyndir, en út frá þeim er meðferð ákveðin. Oftast þarf að taka viðkomandi tennur, en ef sjúkdómurinn hefur grasserað lengi geta rætur verið horfnar og beinvefur kominn í staðinn. Þá getur verið nóg að saga glerjungshlutann af undir tannholdsbrún og loka tannholdinu.
Grein eftir: Ellen Ruth Ingimundardóttir, dýralækni með sérgrein í tannlækningum gæludýra hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti.
Birtist fyrst í fréttabréfi Kynjakatta, 1.tbl. 22.árgangur 2012.
Myndir eru úr bókinni Small Animal Dentistry A manual of techniques,
eftir Cedric Tutt; Blackwell Publishing, 2006.