Kynning á frambjóðendum til stjórnar 2019

15. apríl 2019

Aðalfundur Kynjakatta verður haldinn 27. apríl nk. kl. 13:00 í salnum hjá dýraspítala Garðabæjar. Kosið verður meðal annars í stöðu ritara, gjaldkera og formanns á fundinum.

Skoðið fulla dagskrá fundarins hér.

Athugið að einungis félagsmenn sem hafa greitt félagsgjöld fyrir árið 2019 og sækja fundinn hafa kosningarrétt. Einnig er þó hægt að óska eftir að greiða atkvæði utan kjörfundar. Sendið fyrirspurn á stjorn@kynjakettir.is.

 

Eftirfarandi framboð hafa borist Kynjaköttum:

TIL FORMANNS

Sigurður Ari Tryggvason

"Ég heiti Sigurður Ari Tryggvason og bý ásamt fjölskyldu og fimm Maine Coon kisum á Akureyri.

Það hafa verið kettir á mínu heimili nánast alla tíð en fyrsti ræktaði kötturinn sem við fengum árið 1986 var Síams kisinn Skuggi sem við fengum að njóta í tæp 17 ár. 2005 fengum við okkar fyrsta Maine Coon og byrjuðum að mæta á sýningar Kynjakatta þá um haustið og höfum gert það síðan. Í dag ræktum við Maine Coon ketti undir nafninu Ice Viking’s.

Meira og minna síðan 2006 hef ég tekið fullan þátt í störfum félagsins bæði á sýningum, sem vefstjóri og síðustu 2 árin sem formaður.. Síðustu 2 árin hafa verið lærdómsrík og oft verið mikil vinna, fjármál félagsins þörfnuðust endurskoðunar og tók það stóran hlluta af tíma stjórnar framan af en einnig verið laga vinnuferla og smábreytingar í kringum sýningar. Eitt og annað er þó eftir og sækist ég því eftir endurkjöri þannig að nýta megi reynslu mína í þágu félagsins "

 

TIL RITARA

Laufey Hansen

"Ég heiti Laufey Hansen og er 30 ára, fæddur og uppalin Akureyringur. Ég bý á Akureyri með fjölskyldunni minni og 5 persum.

 

Ég er að rækta color point persa undir nafninu Ísloga og byrjaði minn kisuferil 15 ára gömul. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á persanum en tók ræktunarpásu í töluverðan tíma. Ég er að koma sterk inn núna síðustu tvö ár og er nýbúin að flytja inn högna til ræktunar en átti fyrir þrjár læður og einn geldan högna.

 

Ég hef verið að taka meiri og virkan þátt í sýningum síðustu ár og er tilbúin að leggja mitt af mörkum til að halda áfram þessu góða starfi í kattaræktarfélaginu okkar og ætla því að bjóða mig fram sem ritara Kynjakatta."

 

TIL GJALDKERA

Íris Ebba Ayjai

"Ég heiti Íris Ebba Ayjai og er ásamt fjölskyldu minni búsett í Sandgerði. Ég er búin að sitja í stjórn Kynjakatta sem gjaldkeri seinustu 4 ár og endurnýja hér með framboð mitt.

Ég er fisktæknir að mennt, er útskrifuð úr gæðastjórnun Í Fisktækniskóla Íslands og vinn hjá Lögreglustjóra Suðurnesja. Ég er eigandi ásamt eigin manni mínum Julius Ajayi af Arctic North ræktuninni en við erum að rækta Maine Coon."