Karlmenn og gæludýr
Könnun um gæludýr sýnir að karlmenn eru ekki barnanna bestir. Þrír er einum of mikið, segir þriðjungur karlmanna sem myndi frekar velja nýjan maka fram yfir gæludýrið sitt. Það er niðurstaða nýrrar könnunar sem kannaði sambönd á milli eigenda og gæludýra þeirra.
Karlar geta hegðað sér eins við gæludýr og þeir hegða sér gagnvart konum. Þeir eru fljótari að binda sig tilfinningalega heldur en konur, en eru miklu líklegri til að skipta þeim út fyrir nýrra módel. Konur tengjast hins vegar gæludýrum sínum sterkari tilfinningaböndum eftir því sem tíminn líður, þannig að sambandið helst til lífstíðar.
Könnuninni svöruðu 2000 manns og var hún gerð fyrir sjónvarpsþáttinn Pets for Life, sem hefur það að markmiði að auka þekkingu bresku þjóðarinnar á velferðarmálum dýra og draga úr fjölda yfirgefinna gæludýra. Næstum þriðjungur karlmanna sögðu að eftir aðeins 2 daga þá elskuðu þeir gæludýrin sín og kæmu fram við þau eins og fjölskyldumeðlim; líkt og 28% karlmanna sem sagði að þeir yrðu ástfangnir af manneskju eftir þrjú stefnumót. Til samanburðar þá fundu 22% kvenna það sama gagnvart gæludýrum sínum eftir aðeins 2 daga og jafnvel færri (18%) voru ástfangnar af maka sínum eftir 3 daga. Eftir þrjá mánuði sögðu hins vegar 64% kvenna, á móti 48% karla, að þær elskuðu virkilega gæludýrin sín og fannst þau vera hluti af fjölskyldunni. Meira en 57% kvenna og 43% karla sögðu að það tæki þrjá mánuði að verða ástfangnir af makanum.
Í könnuninni kom líka fram að 32% karla sem myndu finna gæludýri sínu nýtt heimili ef nýi makinn væri ekki hrifinn af dýrinu voru tvisvar sinnum líklegri til að „stökkva“ úr fyrra sambandi – skipta út gömlu kærustunni fyrir nýrra módel – heldur en karlar sem hefðu tekið pásu á milli sambanda (44% á móti 18%). Aðeins 17% af konum játuðu að hafa stokkið úr fyrra sambandi í það næsta og aðeins 19% myndu skipta út gæludýrinu sínu fyrir nýjan maka.
Alastair Clayton, talsmaður PMGTV, fyrirtækisins á bak við Pets for Life segir: „Auðvitað á maður að eiga gæludýr alla ævi þess, en sem þjóð virðumst við koma fram við gæludýrin okkar eins og manneskjur sem ekki eru algjörlega háðar okkur. Við erum í sambandi við dýr án þess að hugsa um langtímaafleiðingarnar. Hjá dýrum er ekkert sem heitir skyndiskilnaður eða vinsamlegur aðskilnaður. Dýrin geta bætt svo miklu við líf okkar, en það er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir kostnaðinum, tímanum og skuldbindingunni sem er innifalin í ábyrgðinni við að halda gæludýr. Pets for Life hefur það að markmiði að taka á þessum málum og bjóða upp á raunverulegar lausnir á þeim hversdagslegu vandamálum sem geta komið upp hjá dýrum sem eru yfirgefin.“
Að meðaltali eyða konur um 11 gæðaklukkustundum á viku með gæludýrum sínum á móti 9 klukkustundum hjá körlum og má því segja að almennt eyði þær meiri tíma með þeim en karlar. En þegar kemur að svefnvenjum, þá viðurkennir 36% karla að þeir deili rúminu með gæludýrinu, á móti 29% kvenna. Fjögur prósent karla viðurkennir að nota gæludýrin sín til að ná til kvenna, en 6% karla myndi setja tilfinningar gæludýrsins ofar sínum eigin.
Samkvæmt dýragóðgerðarstofnuninni Bláa krossinum í Bretlandi þá voru yfir 4000 dýr yfirgefin af ráðnum hug síðustu 12 mánuði, mörg vegna fjárhagslegra ástæðna, svo sem að eigendur misstu heimili sín, fluttu eða misstu vinnuna, en einnig vegna breytinga í samböndum.
Þýðandi: Kolbrún Bergsdóttir
Heimild: Catworld.
Birtist í fréttabréfi Kynjakatta, 2. tbl. 21. árangur 2011.