Reynslusaga ræktenda: Snemmgelding

Rósa Jónsdóttir með fyrstu Maine Coon ræktunarlæðu Íslands, Atalante Silvi-Cola*PL Rósa Jónsdóttir með fyrstu Maine Coon ræktunarlæðu Íslands, Atalante Silvi-Cola*PL

Upplifun mín af geldingu kettlinga er mjög góð. Ég hef svosum ekki verið stór ræktandi en verið að fara með nokkra 13-14 vikna kettlinga á ári.

Ég hef áður farið með dýr í geldingu um 7-8 mánaða og mér hefur ekki fundist þau fara vel út úr því, að minnsta kosti ekki læðurnar. Og árið 2010 fór ég með 2 læður rúmlega eins árs gamlar í geldingu, eina Maine Coon og 1 húskött, og húskötturinn lifði aðeins í örfáa daga eftir geldinguna og niðurstaðan var sú að sennilega þoldi hún ekki svæfinguna.

Svo mín upplifun af því að fara með dýrin eftir því sem þau verða eldri er ekki góð þar sem við tökum alltaf áhættu með svæfingunni.

Ég fer með dýrin mín á Dýraspítalann í Lögmannshlíð (á Akureyri) þar sem hún Elfa Ágústsdóttir á og rekur spítalann með manni sínum Höskuldi Jónssyni. Hjá Elfu starfar norski dýralæknirinn Birte Toft sem er ráðin í eitt ár meðan Sif er í fæðingarorlofi. Birte er frá Bergen og lærði dýralækningar í Edinborg í Skotlandi. Hennar sérgrein eru gæludýr, hestar, kýr og kindur og sem gæludýraeigandi og ræktandi finnst mér mjög gott að fara þangað.

Ég ætla að segja frá í stuttu máli síðustu geldingu:

Ég bý á Siglufirði og er rétt um klukkustund að renna til Akureyrar og í síðustu ferð sem var núna í lok janúar þá fór ég með 5 kettlinga. 3 læður og 2 högna. Högnarnir fóru báðir í geldingu og 1 læða. Ég var komin til Akureyrar rétt um 10 um morguninn og mátti ná í allan hópinn um 12:30 þá voru þær búnar að öllu, örmerkja, bólusetja, ormahreinsa þá sem hægt var að ormahreinsa, gelda þá sem átti að gelda og svo þessi almenna heilsufarsskoðun. En ég var sem sé aftur mætt á dýraspítalann um kl.13.00 og við gátum rennt af stað heim rétt rúmlega eitt, en við heyrðum í hádegisfréttum að það voru farin að falla snjóflóð hérna á veginn í múlanum á milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar svo ég var allt í einu á dálítið mikilli hraðferð með mjög dýrmætan farm. En allt gekk vel og ég var komin heim um tvö leytið.

Dýrin sem fóru í geldinguna voru öll vakandi þegar ég kom að sækja þau á dýraspítalann og svo áttu þau bara eftir að hressast þegar leið á daginn. En þær nota róandi og svo staðdeyfingu þegar þær gelda, síðan fá þau bara duglega verkjarsprautu sem dugar þeim í nokkra daga, c.a. viku og þá er þetta allt gróið.

Það má því segja að um 4 leytið þá voru allir orðnir eins og þeir áttu að sér að vera og voru á fullu að leika sér. Högnana er miklu auðveldara að gelda en læðurnar eru geldar í gegn um rör á annari síðunni við nárann og er skurðurinn um 1 cm á lengd. Og svo er settur saumur sem bara eyðist þannig að dýrið er tilbúið til að fara á nýtt heimili eftir c.a. 2 daga eða svo.

Við erum jú alltaf dálítið hrædd við svæfingu svo mér finnst þetta mjög spennandi kostur og ég veit að Elfa ætlar að byðja Birte um að kenna sér þessa röraaðgerð svo hún fari ekki með hana úr landi þegar hún fer.


Kær kveðja,

Rósa Jónsdóttir :)

 

Grein eftir: Rósu Jónsdóttur, Amazing Elva's kattaræktun
Birtist fyrst í fréttabréfi Kynjakatta, 1.tbl. 22.árgangur 2012.