Nokkur ráð vegna flutninga
Flutningar geta verið taugastrekkjandi, sérstaklega fyrir ketti. Kisa mun þurfa sinn tíma til að venjast nýja heimilinu og gott er halda henni innan dyra fyrstu vikurnar.
Köttum finnst erfitt að flytja
Þótt það geti verið spennandi að flytja er sjálfur flutningurinn óttalegt vesen og getur tekið ansi mikið á taugarnar. Flutningar fyrir ketti eru enn erfiðari því þeim þykir nákvæmlega ekkert spennandi við að skipta um heimili! Kettir eru dýr sem marka sér umráðasvæði með því að nudda lykt sinni á hluti á heimilinu. Lyktin lætur aðra ketti vita hver ræður hér húsum (það ert ekki þú, eigandi góður!). Þegar við tökum svo kött af heimili sínu og flytjum hann á nýtt og ókunnt svæði getur reynslan verið hræðileg. Ekki síst ef þar er kannski lykt af ketti sem áður átti þar heima. Ef þú veist til þess að köttur hafi verið á heimilinu áður en þú tókst við því skaltu þrífa sérstaklega vel herbergið sem verður aðsetur kattarins.
Áður en þú yfirgefur gamla heimilið
Það er gott að hafa í huga að allar breytingar á umhverfi kattarins geta komið honum úr jafnvægi. Kassar og húsgögn sem verið er að flytja til geta því gert hann mjög órólegan. Best er ef hægt er að skilja eitt herbergi eftir þar til í lokin og loka köttinn þar inni. Þú skalt ganga úr skugga um að þeir sem eru að hjálpa þér að flytja viti af kettinum svo þeir opni ekki og hleypi kettinum óvart út. Í þessu skyni getur verið sniðugt að setja hreinlega miða með mynd af kisu á hurðina á herberginu þar sem hún er. Þegar það kemur svo að því að flytja köttinn settu hann þá í búrið og festu það vel með bílbelti í bílnum.
Á nýja heimilinu
Þegar þú kemur með kisa á nýja heimilið er best að loka hann inni í einu herbergi þar til flutningar klárast og ró færist yfir heimilið. Hafðu ferskt vatn, mat, kattakassa og uppáhalds teppi kattarins með honum í herberginu. Þú skalt líka ganga úr skugga um að gluggarnir séu lokaðir. Ef þú ert með fleiri en einn kött er betra að hafa þá í sama herberginu svo þeir geti veitt hvor öðrum félagsskap og hughreystingu. Það getur líka verið sniðugt að hafa búrið þarna inni svo kisi geti falið sig ef hann vill, það veitir honum oft öryggiskennd. Kötturinn mun að öllum líkindum ekki hætta sér í könnunarleiðangur um nýja heimilið fyrr en eftir nokkra daga, ekki nema að hann taki breytingum með einstöku jafnaðargeði! Reyndu að halda allri rútínu sem mest og klappaðu kisu oft og talaðu mikið við hana þessa fyrstu daga.
Góð merking
Passaðu að kisa sé vel merkt og sé helst með ól líka. Ef kisa fer á flakk er best ef fólk getur séð strax hvar hún á heima með því að sjá upplýsingar um það á ólinni. Ef kisa er eyrna- eða örmerkt verðurðu að muna eftir að láta dýralæknastofuna vita af breyttu heimilisfangi. Kisa mun venjast nýja heimilinu, engar áhyggjur, það getur bara tekið svolítinn tíma. Þegar kisa vill reka nefið út skaltu athuga hvort það eru einhverjir hundar í nágrenninu. Best er að halda kisu inni fyrstu vikurnar meðan hún jafnar sig. Þá verður hún búin að taka nýja heimilið í sátt og búin að lyktarmerkja húsgögnin.
Gangi þér vel!
Þýðandi: Sigrún Erna Geirsdóttir
Heimild: Cat World. Moving House With A Cat.
Mynd: Rúnar Gunnarsson
Birtist fyrst í fréttabréfi Kynjakatta, 1.tbl. 25.árgangur 2015.