Silfur

Silur Sómali - Ljósmynd: Roald Kongro Silur Sómali - Ljósmynd: Roald Kongro

Samkvæmt ensku orðatiltæki er silfur-brydding á öllum skýjum, það eru alltaf Ijósir punktar í lífinu. Silfur er líka litur á köttum - sumir þeirra eru mjög glæsilegir, þökk sé þrautseigju og dugnaði margra ræktenda.

Silfur er ríkjandi grunnlitur

Silfur er grunnlitur hjá köttum; þeir geta verið silfraðir með bröndumynstri (tígur, bröndu, doppubröndu o.s.frv.) eða silfraðir og heillitir (reyklitir).

Kettir eru aldrei bara silfurlitir, heldur blandast silfrið alltaf öðrum lit, t.d. svartsilfurbranda, súkkulaðisilfuryrjudoppubranda, lillasilfurtítubranda eða blár reyklitur. Silfur getur einnig blandast dílóttu og/eða síamynstri (burmese, tonkinese og síams). Útkoman getur meðal annars verið silfurgríma, silfurbröndugríma, hvítflekkóttur eða reyklitur og hvítur. Allir silfurgrímulitir blandast aðallit, t.d. silfurbrúnbröndóttgríma.

Chinhilla/Silfur Persi - Ljósmynd: Roald Kongro

Í upphafi kattaræktunarinnar var álitið að ekki væri erfðafræðilega mögulegt að fá silfraða ketti með himalaya munstri. Annað kom þó í Ijós þegar tvær bröndugrímur voru paraðar með tveim heillituðum köttum, útkoman varð silfurdoppu bröndóttir kettlingar. Þetta jók skilning okkar í erfðafræði silfur litsins. Að sjálfsögðu eins og svo oft þegar eitthvað nýtt og óvænt gerist í kattaræktinni, olli þetta rifrildi og úlfúð. Deilt var um hver hefði rétt fyrir sér og um hverjir ættu í raun 'ekta' silfurkött. Ekki batnaði ástandið við það að ræktendur tóku að ásaka hvern annan og urðu óvinir. En nú höfðu menn þó lært að það væru til silfurgrímóttir kettir og endurskoðuðu því kenningar sínar um hvernig silfur erfðist.

Silfur er táknað erfðafræöllega með I (stórt i, eftir enska orðinu "inhibitor"). Stór stafur gefur til kynna að silfur er ríkjandi gen. Til að kettlingur erfi silfrið verður minnst annað foreldrið að vera silfur. Köttur getur verið hreinn silfur (II) og átt þá eingöngu silfur afkvæmi. Sé hann blandaður silfur hefur hann genaformúluna (Ii) og getur því bæði átt silfraða og ósilfraða kettlinga. Kettir bera aldrei silfur án þess að vera silfraðir sjálfir, vegna þess að silfurgenið er ríkjandi.

Stundum er silfurmagnið svo lítið að það er erfitt að sjá að kötturinn sé í raun silfraður. Slíkir kettir eru kallaðir 'overlaps' á ensku og þeir hafa valdið ýmiss konar misskilningi hjá ræktendum sem ekki átta sig alveg á hvernig silfur virkar erfðafræðilega og í reynd.

IS*Frostrósar Brenda & IS*Frostrósar Himri, bæði silfur Norskir Skógarkettir Ljósmynd: Jo Ann Önnudóttir

Silfur er bældur litur

Sem fyrr segir er I táknið fyrir silfur dregið af enska orðinu "inhibit" sem þýðir að hindra í að gera eitthvað eðlilegt eða einfalt. Silfurgenið hindrar að litarefni myndist í feldinum, útkoman verður silfurhvítur litur.

Silfurgenið veldur því að heillitaður köttur fær næstum alveg Ijósan undirfeld og að grunnlitturinn sést aðeins á efri hluta háranna. Það má segja að liturinn liggi eins og teppi eða lok yfir silfrinu. Þegar reyklitur köttur situr kyrr á hann að sýnast heillitur, en silfrað undirlagið á að sjást þegar hann hreyfir sig.

Hjá silfruðum köttum með bröndumynstur lýsist grunnliturinn og verður kaldari, andstæðurnar við bröndurnar skerpast því. Silfurgenið hefur nefnilega mest áhrif á þau hár sem hafa minnst litarefni, en draga hvorki úr skírleika brandanna né lýsa þær. Þvert á móti, það virðist dekkja litarefnið í þeim.

Dæmi: Brúnsilfurgríma verður svartari og liturinn á búknum næstum hvítur í staðinn fyrir Ijós kremlitaður. Súkkulaðismoke fær mjög kaldan og oftast ansi dökkan súkkulaðilit og lillasilfurdoppubröndu vantar yfirleitt alveg rósrauðan blæ.

Fullkomin svört silfurdoppubranda hefur hreinan og þynntan silfurgráan undirlit með skírum svörtum doppum. Svört doppubranda án silfurs hefur koparbrúnan grunnlit og svartar doppur. Því miður blandast þeir stundum við gulllitaða ketti. Gullbranda er með mikið Ijósari og mildari grunnlit, í staðlinum heitir það mjög heitur litur, frá dökk gulu yfir í aprikósulit.

Salt og pipar

Hugsið þetta sem svo: reyklitur köttur er eins og blanda af salti og pipar í glasi. Saltið er silfur, piparinn er venjulegi liturinn. Því meira salti sem við hellum í, þeim mun Ijósari verður blandan og við sjáum saltið (silfrið) greinilegar.

Silfurbröndumynstri má líkja við glas með 3 efnum: salti, rauðum pipar og svörtum. Svarti piparinn er bröndumynstrið. Rauði piparinn er grunnliturinn og saltið er silfrið, þ.e. lýsti grunnliturinn. Munið að silfurgenið hefur engin áhrif á bröndurnar, piparmagnið er óbreytt þótt við bætum við salti! Rauði piparinn er sá hluti litarins sem er eftir sem heitur litur. Þessir smáu blettir af heitum lit i feldi silfurkatta eru kallaðir ryð. Og samkvæmt almennum litastaðli eiga silfurkettir að hafa sem allra minnst af ryði. Magn ryðs stjórnast af mörgum genum, því ættu ræktendur að nota ketti sem eru að mestu lausir við ryð.

Svo samlíkingunni sé haldið áfram, þá skiptir máli að ná fram réttri blöndu af svörtum pipar og salti, helst án rauðs pipars. Og langtíma-markmið ætti að vera að fá fallega blöndu af salti og svörtum pipar sem gefur skarpar andstæður og fallegt hreint mynstur. Þegar það tekst ræktar maður ketti með hreinan og fallegan silfurbröndulit.

Samantekt:

  • Silfur er ríkjandi gen.
  • Köttur er erfðafræðilega silfur, (II) eða (li) eða ekki silfur (ii).
  • Genið lýsir grunnlit kattarins.
  • Silfrið hefur ekki áhrif á skírleika bröndumynstursins.

Silfrið á að sjást!

Janelle Lawrence, frægur ræktandi Austurlenskra (Oriental) skrifar í grein sinni „What is silver" eftirfarandi:

„Ef þú sérð ekki að kötturinn er silfraður, láttu hann þá eiga sig."

Þetta er meginregla hennar í ræktun og á sýningum. Skynsamleg orð og þetta er einmitt kjarni málsins.

 

Birtist fyrst í fréttabréfi Kynjakatta, 1.tbl. 21.árgangur 2011.