Efnaskiptaröskun í Norskum Skógarköttum
Á aðalfundi FIFé 2011 voru settar fram reglur sem skylda ræktendur Norskra Skógarkatta að framkvæma kjarnsýrupróf (DNA) á ræktunardýrunum sínum ella verða ekki gefnar út ættbækur á afkvæmi þeirra.
Breytingin mun birtast sem grein 6.15 í FIFe Breeding and Registration Rules og er svo hljóðandi:
Norskir Skógarkettir (NFO) sem notaðir eru til ræktunar skal prófa með DNA prófi (kjarnsýrupróf) fyrir geninu GBE-1 (GSD IV – glycogen storage disease), nema að sönnun liggi fyrir að búið sé að prófa báða foreldra ræktunardýrsins og hvorugt reynist þeirra bera genið.
Kettir sem prófaðir eru skal vera hægt að auðkenna með örmerki eða eyrnamerki, og skal örmerkisnúmerið eða eyrnamerkisnúmerið vera tilgreint á eyðublaðinu sem sent er til rannsóknastofunnar og síðar koma skýrt fram á niðurstöðuskjalinu.
Eftirfarandi reglu skal fara eftir þegar búið er að prófa: Óleyfilegt er að para ketti sem bera genið við aðra ketti sem bera genið.
Vottorð viðurkennt af dýralækni með upplýsingum um GBE-1 stöðu kattarins skal fylgja ættbók hans.
En hvað er GSD IV?
GSD IV (Glycogen Storage Disease type IV) er arfgeni sjúkdómur sem hefur áhrif á glýkógen efnaskiptin, en hann þekkist einnig meðal manna, hesta og katta. Meðal katta hefur hann einungis fundist í Norska Skógarkettinum.
Sjúkdómslýsing GSD IV
Flestir kettlingar með sjúkdóminn fæðast andvana eða deyja skömmu eftir fæðingu, líklega vegna, blóðsykursskorts í fæðingu og fyrstu klukkustundir lífs síns (geta ekki framleitt nægt glýkóken). Í afar sjaldgæfum tilfellum þá geta kettlingar þroskast „eðlilega“ til 4-5 mánaða aldurs, þá gætu þeir fengið hitabreytingar með skjálftum og óregluhreyfingu (ráða ekki við hreyfingarnar sínar), því næst hættir kettlingurinn að vaxa og taugarnar sem stjórna vöðvum hrörna, mikill vöðva veikleiki, almenn líkamsrýrnun, og geta kattarins til að borða, þrífa sig og hreyfa verður skert. Sjúkdómurinn endar með hjartabilun eða þeir falla í dá, að öllum líkindum deyja þeir áður en þeir ná 15 mánaða aldri. En yfirleitt er búið að svæfa kettlinginn af mannúðarástæðum áður en til þess kemur vegna óbærilegs sársauka sem kvillinn veldur.
Hvernig erfist sjúkdómurinn?
Efnaskiptaröskun í Norska Skógarkettinum erfist þannig að báðir foreldrar kettlings þurfa að bera genið fyrir sjúkdóminum til að kettlingur fæðist með sjúkdómseinkennin. En sé annað foreldrið laust við genið mun kettlingurinn samt sem áður erfa eintak af geninu frá hinu foreldrinu og viðhalda þannig sjúkdóminum í tegundinni.
Genið sem veldur sjúkdóminum fannst af Dr. Johnn Fyfe í Bandaríkjum, en hann þróaði einnig blóðprufuna fyrir stökkbreytingunni árið 1996. Þetta próf hefur verið í boði fyrir Evrópubúa síðan 2007. Tíðni sjúkdómsins er um 15% í BNA, en af þeim 2300 köttum sem voru prófaðir voru í Evrópu á heilu ári voru 12 % þeirra með genið.
Eins og gefur að skilja þegar svona auðvelt er að athuga hvort ræktunardýr beri sjúkdóminn, og auðvelt er að útrýma honum er afar eðlilegt að FIFe setji það sem skyldu að láta framkvæma þetta kjarnsýrupróf áður en ræktað er undan köttum af tegundinni. Heilbrigði katta er eitt af aðal markmiðum FIFe.
Hvernig get ég látið skoða köttinn minn?
Hægt er að nálgast skýrar íslenskar leiðbeiningar á netinu um hvernig prófað er á heimasíðunni www.pawpeds.com, en það er alþjóðlegur ættbókagagnagrunnur þar sem einnig eru heilsufarsverkefni
í samstarfi við kattaræktarfélögin.
Ef það vefst fyrir ræktendum hvernig á að prófa ræktunardýrin sín eða viðkomandi er ekki með aðgang að netinu er hægt að leita aðstoðar hjá stjórn Kynjakatta, en undirritiðu er í forsvari fyrir stjórn hvað þetta varðar.
Þeir sem þegar hafa framkvæmt prófin geta sent afrit af vottorðunum frá rannsóknarstofunni til skráningastjóra Kynjakatta, því fyrr því betra. Margar rannsóknastofu bjóða upp á að hægt sé að kaupa vottorð eftir á, mikilvægt er að örmerki kattarins komi fram á vottorðinu.
Grein eftir: Vigdísi Andersen, vigdis@kynjakettir.is
Birtist í fréttabréfi Kynjakatta, 2. tbl. 21. árangur 2011.