Hnéskeljalos hjá köttum
Hnéskeljalos er arfgengur sjúkdómur meðal hunda og katta. Sjúkdómurinn lýsir sér þannig að hnéskelin verður laus, misjafnt er hversu laus, allt frá því að hægt sé að smegja henni úr grópinni með valdi og frá því að hún hættir algjörlega að sitja á sínum stað.
Með grófri útskýringu þá á hnéskelin að sitja ofan í ílangri gróp úr brjóski með bökkum með fram svo hún hreyfist bara upp og niður þegar hnéin eru beygð, mjög svipað kerfi og rússíbanar eru með til að halda sér á brautinni, þeir fara bara fram eða aftur. Þegar þessir bakkar eru óvenjulágir eða jafnvel ekki til staðar getur hnéskelin einnig farið að ferðast til hægri og vinstri. Stundum vantar aðeins bakkann öðru megin og stundum báðu megin. Það er sársaukafult þegar skelin fer á flakk, en það er örlítið skárra þegar hún hliðrast inn á við (að næsta fót) frekar en út á við, en dýrinu líður auðvitað lang best ef skeljarnar haldast á sínum stað.
Lárétt á hnéskelina eru sinar sem hjálpa til við að halda henni á sínum stað, en þegar skelin er mikið að flakka lengjast þær og þjóna ekki lengur tilgangi sínum. Þegar hnéskeljalos er slæmt er stundum framkvæmd aðgerð sem felur í sér að dýpka grópina og stytta sinarnar aftur, stundum er bætt við litlum stálpinna svo að í framtíðinni haldast skeljarnar á sínum stað. Þessi aðgerð hefur gefið góða reynslu og sjái dýralæknir ekki fram á að dýrið uni sér án þessarar aðgerðar hafa þær verið bættar að hluta hjá þeim köttum sem eru tryggðir með sjúkdómatryggingu hjá VÍS.
Stig hnéskéljalos
Hjá köttum og hundum eru mismunandi stig hnéskeljalos og ræktendur láta dýralækna þreyfa hnéin á köttunum og fá vottorð þess efnis að kötturinn sé með eða laus við los.
- Normal: Eðlilegar skeljar, engin merki um los
- Grade 1: Hægt er að færa hnéskelina handvirkt úr grópinni og hún fer á sinn stað þegar henni er sleppt.
- Grade 2: Hægt er að færa hnéskelina handvirkt / hún fer úr grópinni þegar liðurinn er beygður. Hnéskelin helst fyrir utan grópina þar til hún er færð handvirkt aftur í hana eða dýrið réttir sjálft úr fætinum og skellir henni í.
- Grade 3: Hnéskelin helst nánast alltaf fyrir utan grópina en hægt er að setja hana á sinn stað handvirkt, skelin fer auðveldlega aftur úr grópinni þegar liðamótin er sveigð.
- Grade 4: Hnéskelin er alltaf fyrir utan grópina og er ekki hægt að færa hana aftur inn handvirkt. Bakkinn er mjög lítill eða farinn.
Hnéskeljalos hjá Maine Coon
Svolítið hefur borið á hnéskeljalosi í Maine Coon köttum á Íslandi sem og út í heimi, ekki er vitað hvað vandinn er stór því ekki er búið að rannsaka það náið. Hins vegar hefur verið sett á fót rannsókn í Sænska Maine Coon klúbbinum sem mun seinna verða heilsufarsverkefni í PawPeds gagnagrunninum. Líklega verður heilsufarsverkefnið sett upp með svipuðu sniði og mjaðmalos heilsufarsverkefnið með rönken myndum og nákvæmum niðurstöðum, þangað til mælum við með að ræktendur láti dýralækni þreyfa hnéskelina á ræktunardýrum og reyna að para a.m.k. ekki saman tvo ketti með los. Maine Coon klúbburinn í Hollandi er einnig með öflugt hnéskeljalos heilsufarsverkefni þar sem liggja fyrir yfir 500 niðurstöður.
Hafið í huga að kettir sína ekki merki um þennan sársauka, þeir geta auðveldlega stokkið og hlaupið en þeir eiga jafnvel eftir að liggja og sofa öðruvísi og forðast það að beygja hnéð. Mjög sjaldgæft er að þeir haltri en það kemur þó fyrir. Til eru verkjalyf til að deyfa sársaukann en einnig er hægt setja dýrið í aðgerð. Það er sjaldan sem aðeins annað hnéð er með los, en oft verða eigendur þess ekki varir að hitt hnéð sé einnig með los fyrr en búið er að gera við það upphaflega.
Texti eftir Vigdísi Andersen, 2010