Samstarf KKÍ og VÍS
Í lok árs 2005 undirrituðu forsvarsmenn Kynjakatta og VÍS samning sem hefur og mun án vafa koma félagsmönnum vel í framtíðinni.
VÍS hóf sölu á sérsniðnum tryggingum fyrir ketti árið 2003 undir heitinu Vís Agria kattavernd. Margir kattaeigendur höfðu beðið eftir tryggingum af þessu tagi, en þær hafa verið í boði í nágrannalöndum okkar um árabil.
Í lok árs 2005 undirrituðu forsvarsmenn Kynjakatta og VÍS samning sem hefur og mun án vafa koma félagsmönnum vel í framtíðinni. VÍS hóf sölu á sérsniðnum tryggingum fyrir ketti árið 2003 undir heitinu Vís Agria kattavernd. Margir kattaeigendur höfðu beðið eftir tryggingum af þessu tagi, en þær hafa verið í boði í nágrannalöndum okkar um árabil.
Kynjakettir hafa frá upphafi átt gott samstarf við VÍS vegna þessarra trygginga og tókum við meðal annars þátt í gerð skilmála, þar sem fram kemur að ættbókafærðir kettir hjá Kynjaköttum njóta víðtækari tryggingaverndar en aðrir. Meðal annars er í boði afnotamissistrygging fyrir ræktunardýr, en úr henni eru greiddar bætur ef köttur veikist eða slasast þannig að ekki sé hægt að nota hann í ræktun. Þessi trygging er eingöngu í boði fyrir félagsmenn Kynjakatta.
Tillit tekið til sjónarmiða Kynjakatta
Kynjakettir eiga fulltrúa í fagráði Vís Agria ásamt fulltrúum frá Hundaræktarfélagi Íslands, Dýralæknafélagi Íslands, Landssambandi hestamanna, Félagi tamningamanna og öðrum sem hagsmuna eiga að gæta. Á fundum fagráðsins gefst öllum fulltrúum tækifæri á að koma á framfæri hugmyndum sínum og hagsmunamálum við VÍS. Hefð er fyrir því hjá móðurfélaginu í Svíþjóð að gott samstarf af þessu tagi sé meðal allra hagsmunaaðila.
Um Agria
Agria er eitt elsta dýratryggingafélag í heimi og á yfir 100 ára gamla sögu í heimalandinu, Svíþjóð. Á síðustu áratugum hefur aukin vinna verið lögð í tryggingar fyrir gæludýr og hesta, enda fer þeim sífellt fjölgandi sem vilja eiga dýr og hafa þau sem hluta af fjölskyldu sinni. Agria er jafnframt eitt stærsta dýratryggingafélag í heimi. Það hefur tvisvar sinnum fengið konunglegu sænsku gæðaverðlaunin, sem þykja einkar eftirsókanarverð.
Þess má geta að grundvallarkrafa Agria er að starfsmenn félagsins eigi sjálfir dýr. Það þykir okkur áhugavert sjónarmið, því auðvitað skiljum við sem eigum dýr betur hvert annað. Það þekkjum við kattaeigendur mæta vel.
Hvað græðum við?
Með samstarfssamningi Kynjakatta og VÍS fáum við fjárhagslegan stuðning sem skiptir miklu máli fyrir starfsemi félagsins. Auk þess fá allir félagsmenn 10% afslátt af tryggingunum. Vís Agria beitir sér meðal annars fyrir fræðslu meðal kattaeigenda og hvetur til rannsókna sem bætt geta lífsgæði katta og eigenda þeirra. Fulltrúar frá Vís Agria verða á sýningum okkar þar sem félagsmenn geta fengið upplýsingar og rætt um tryggingamál.
Tengiliður okkar hjá Vís Agria er Brynja Tomer, sem mörgum er að góðu kunn fyrir áhuga sinn á hundum, en hún er líka ein af þeim fyrstu sem gengu í félagið okkar þegar það var stofnað.
Við hvetjum félagsmenn til að tryggja kettina sína og ennfremur mælum við með því að ræktendur láti tryggingar í eitt ár fylgja kettlingum sem þeir selja. Með því móti sýna þeir í verki að þeir eru ábyrgir ræktendur, sem láta sér annt um velferð kattanna sinna. Hægt er að hafa samband við Brynju Tomer hjá Vís og óska eftir tilboðum frá henni, brynjat@vis.is. Einnig er hægt að nálgast upplýsingar á vefsíðunni www.vis.is.
Það er ósk Kynjakatta að félagsmenn verði duglegir að tryggja kettina sína og að þeir taki vel þessari nýjung. Stjórn félagsins er ánægð með samstarfið og vonar að það verði blómlegt á komandi árum.
Sameiginleg ákvæði
Vátryggingin tekur gildi um leið og VÍS móttekur og samþykkir vátryggingarbeiðni. Vátryggingin tekur ekki til sjúkdóms sem á upptök sín fyrstu 14 dagana sem hún er í gildi. Þetta á hins vegar ekki við um áverka af völdum slyss, vátryggingin bætir strax bótaskyld tjón vegna slíks atburðar. Sérstök ákvæði eiga við um suma sjúkdóma og er nánar fjallað um það í skilmálum vátryggingarinnar.
Þegar sótt er um tryggingu er nauðsynlegt að leggja fram dýralæknisvottorð sem er ekki eldra en 30 daga ef:
- Köttur er 5 ára gamall eða eldri
- Hann hefur verið veikur eða slasast*
- Óskað er líftryggingarfjárhæðar sem er hærri en 50.000 kr.
Þegar vátryggingarbeiðni er lögð fram þurfa m.a. að liggja fyrir upplýsingar um einstaklingsmerkingu kattarins, svo sem örmerki eða húðflúrsnúmer.
*Hafi köttur veikst eða slasast áður en vátryggingarbeiðni var útfyllt er nauðsynlegt að tilgreina dagsetningu og eðli meiðsla. Í flestum tilvikum er óskað eftir vottorði frá dýralækni og ef svo er mun verða haft samband við vátryggingartaka.
Einföld tjónaþjónusta
- betri þjónusta fyrir viðskiptavini VÍS
Mikilvægur þáttur í þjónustu VÍS snýr að greiðslu tjóna. Sé farið með köttinn til dýralæknis á afgreiðslutíma þjónustuskrifstofa VÍS er möguleiki á að fá tryggingabætur greiddar strax hjá dýralækni sem er með samninga við VÍS um uppgjör tjóna. Þannig þarf viðskiptavinur eingöngu að leggja út fyrir þeirri fjárhæð sem VÍS bætir ekki.
Til þess að þetta sé hægt þarf að hafa vátryggingarskírteinið meðferðis til dýralæknis. Einfaldara getur það ekki verið.
Um tryggingarnar
Líftrygging
Ef kötturinn er líftryggður greiðir félagið bætur ef köttur deyr, hvort sem það er af völdum sjúkdóms eða slyss. Einnig ef hann veikist eða slasast svo illa að dýralæknir telur nauðsynlegt að svæfa hann.
Hægt er að kaupa líftryggingu fyrir kött þegar hann hefur náð 8 vikna aldri og getur hann verið líftryggður til þess árs sem hann verður 13 ára gamall. Vátryggingarfjárhæðin lækkar um 10% á ári frá því ári sem kötturinn verður 8 ára.
Til þess að vátryggingarverndin sé sem best þarf fjárhæð líftryggingarinnar að endurspegla markaðsvirði kattarins en það miðast við kaupverð og staðfesta eiginleika hans á hverjum tíma. Ef eiginleikar kattarins breytast er hægt að hafa samband við félagið og breyta fjárhæð líftryggingarinnar í samræmi við breytt verðmæti hans. Ekki er hægt að líftryggja kött eða hækka vátryggingarfjárhæð hans eftir að hann hefur náð 6 ára aldri.
Vátryggingin bætir ekki kostnað af völdum veikinda eða meiðsla sem voru til staðar eða áttu sér upphaf áður en tryggingin var keypt. Sérstök ákvæði eiga við um suma sjúkdóma sem nánar eru tilgreindir í skilmálum tryggingarinnar.
Hámarks vátryggingarfjárhæð á blendinga er 10.000 kr.
Sjúkrakostnaðartrygging
Með því að taka tryggingu fyrir sjúkrakostnaði getur eigandi kattarins útvegað honum bestu meðhöndlun sem völ er á. Algengar aðgerðir á köttum geta hæglega kostað háar fjárhæðir, jafnvel tugi þúsunda króna. Tryggingin greiðir slíkan kostnað samkvæmt skilmálum og að frádreginni eigin áhættu. Vegna sjúkdóma eða slysa greiðist lækniskostnaður sem nemur allt að 150.000 kr. á hverju iðgjaldaári. Með lækniskostnaði er átt við greiðslur til dýralækna, dýralæknastofa og dýraspítala á Íslandi auk lyfja sem sömu aðilar afhenda eða ávísa vegna sjúkdóma og slysa.
Hægt er að tryggja köttinn frá 8 vikna aldri og getur kötturinn verið tryggður til æviloka eða eins lengi og eigandi hans kýs. Vátryggingarfjárhæðin lækkar um 10% frá því ári sem kötturinn verður 7 ára og síðan um 10% árlega næstu 3 ár þar á eftir, en helst svo óbreytt.
Eigin áhætta er tvíþætt, föst fjárhæð, 7.000 kr. og síðan 10% af lækniskostnaði umfram hana. Fasta fjárhæðin í eigin áhættunni er aðeins greidd einu sinni fyrir hvert 100 daga tímabil sem kallað er eigin áhættu tímabil og hefst við fyrstu heimsókn til dýralæknis.
Afnotamissistrygging
Vátryggingin bætir tjón vegna afnotamissis kattar sem er notaður eða mun verða notaður í kynbótaræktun. Vátryggingu vegna afnotamissis er eingöngu hægt að kaupa sem viðbót við líftryggingu.
Vátryggingarfjárhæð og aldursmörk eru þau sömu og í líftryggingu kattarins. Ef um afnotamissi hjá ræktunarketti er að ræða er sá hluti líftryggingarfjárhæðarinnar greiddur sem er umfram 20.000 kr.
Ábyrgðartrygging
Ábyrgðartryggingin tryggir gegn þeirri mögulegu skaðabótaskyldu sem fellur á eiganda kattar vegna athafna kattarins sé skaðabótaskyldan bein afleiðing af tjóni á mönnum og munum, þar með talið fasteignum og dýrum.
Eigin áhætta er 10% eða að lágmarki 13.400 kr. og að hámarki 134.000 kr. Vátryggingabætur til þriðja aðila geta numið allt að 74.000.000 kr á hverju vátryggingarári.
Umönnunartrygging
Umönnunartrygging eykur öryggi kattareiganda enn frekar. Hægt er að kaupa vátrygginguna annað hvort eina og sér eða til viðbótar við aðrar vátryggingar í Kattavernd VÍS Agria.
Ef vátryggingartaki eða annar fjölskyldumeðlimur með lögheimili á sama stað, slasast svo alvarlega eða veikist að ekki er hægt að veita kettinum þá umönnun sem hann þarfnast, greiðir félagið bætur. Greiddur er kostnaður við vistun og gæslu kattarins á dýrahóteli eða sambærilegri stofnun. Framvísa þarf læknisvottorði vegna veikinda eða slyss eiganda eða umsjónarmanns.
Hvað kostar að tryggja?
Iðgjald trygginga Kattaverndar VÍS Agria ræðst af tegund kattar, líftryggingarfjárhæð og sérstökum eiginleikum ef einhverjir eru. Til þess að fá nákvæmar upplýsingar um iðgjald tryggingar fyrir köttinn er hægt að hafa samband við VÍS í síma 560-5000, með tölvupósti á upplysingar@vis.is eða koma við á þjónustuskrifstofum félagsins um land allt.
Einnig má nota þessa reiknivél til að sjá kostnað af misjöfnum tryggingar pökkum.
Fjölbreyttir greiðslumöguleikar gefa viðskiptavinum kost á að velja sér þá greiðsluleið sem hentar best, hvort sem fólk vill greiða í einni greiðslu eða dreifa fjárhæðinni á lengra tímabil innan ársins.