Niðurstöður frá aðalfundi 2017
Aðalfundur Kynjakatta var haldinn á Kaffi Reykjavík á sunnudaginn var. Fundurinn var nokkuð fjölmennur miðað við fyrri ár en um 46 manns sátu fundinn með stjórnarmeðlimum meðtöldum.
Aðalfundi er þó ekki lokið þar sem ekki var unnt að fara yfir ársskýrslu félagsins á fundinum. Ársreikningurinn hefur að geyma rekstrarreikning, upplýsingar um helstu reikningsskilaaðferðir og aðrar skýringar. Ársreikningurinn fyrir árið 2016 ætti að innihalda efnahagsreikning en gerir það ekki þar sem bókhald félagsins þarfnast leiðréttingar vegna áranna 2014 og 2015. Ekki er unnt að ljúka við gerð ársreiknings fyrr en þeim leiðréttingum er lokið og er sú vinna nú þegar hafin.
Samkvæmt dagskrá fundarins sem auglýst var, var sjötti liður lagabreytingar. Var fyrsti liðurinn dreginn til baka vegna þess að hann stóðst ekki reglur FIFé og fór því aldrei á kjörseðlana. Næsti liður fékk 40 atkvæði með en komist var að sameiginlegri niðurstöðu með að leggja niður tillöguna um sinn og samþykktu fundarmenn að stjórn Kynjakatta myndi hafa samband við heilsuráð FIFé og fá ráð og tilsögn til að gera þetta að sanngjörnum lögum.
Næsta tillaga (49. gr) var viðbót við lög Kynjakatta en tillagan var einnig felld niður á fundinum vegna þess að hún stóðst ekki reglur FIFé.
Því næst var tillaga um breytingu á 18. gr. í lögum Kynjakatta. Fékk tillagan 51 atkvæði með.
Sjöundi liður í fundardagskrá var kosning til stjórnar.
Tveir voru í framboði til formanns, þeir Sigurður Ari Tryggvason og Aliosha Romero. Var Sigurður kjörinn formaður með 44 atkvæðum á móti 31.
Tvær voru í framboð til gjaldkera, þær Ása Björg Ásgeirsdóttir og Íris Ebba Ajayi. Íris var kjörinn gjaldkeri með 50 atkvæðum á móti 25.
Sigríður Þóra Gabríelsdóttir var ein í framboði til ritara og hlaut 49 atkvæði með.
Framhald af aðalfundi Kynjakatta verður vonandi kynnt sem allra fyrst en fundargerð frá aðalfundi mun ekki koma inn á vefinn fyrr þeim fundi verður lokið.