Aðalfundur 2025

Aðalfundur Kynjakatta Kattaræktarfélags Íslands fór fram laugardaginn 26. apríl kl.13:00-15:00 á Suðurlandsbraut 30 Reykjavík. Fyrir fundinn bárust sex utankjörfundaratkvæði og 22 félagsmenn sátu aðalfundinn.

Við upphaf aðalfundar voru tveir félagsmenn tilnefndir í hlutverk fundarstjóra og fundarritara.
Sigurður Ari Tryggvason bauð sig fram sem fundarstjóra og Laufey Rún Harðardóttir sem fundarritara.

Mál sem voru til umræðu:

1. Nefndir og ræktunarráð gera grein fyrir störfum sínum

Rit- og auglýsingarnefnd:
Rósa Hlíðberg Jónsdóttir gerði grein fyrir störfum ritnefndar. Tvö blöð voru gefin út og ýmsar auglýsingar seldar á árinu 2024.

Sýningarnefnd:
Thelma Rut Stefánsdóttir og Halla María Ástvaldsdóttir gerðu grein fyrir störfum nefndarinnar.

Ræktunarráð:
Laufey Rún Harðardóttir gerði grein fyrir störfum ræktunarráðs. Ráðið yfirfór 19 umsóknir innfluttra katta til skráningar í félag Kynjakatta, þar af voru 16 ættbækur frá aðildarklúbbum FIFe og þrjár utan. Auk þess bárust þrjár umsóknir um ræktunarnöfn.

2. Stjórn félagsins gerir grein fyrir störfum sínum

Laufey Rún Harðardóttir las skýrslu stjórnar 2024-2025.

Umræða um viðbrögð Kynjakatta gagnvart Rússlandi: Síðustu ár hefur félagið verið með eftirfarandi takmarkanir gegn Rússlandi í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu: Bannaður innflutningur á köttum fæddum í Rússlandi, rússneskum sýnendum bannað að taka þátt í sýningum á vegum Kynjakatta, meðlimum Kynjakatta bannað að taka þátt í sýningum í Rússlandi og rússneskum dómurum ekki boðið á sýningar Kynjakatta.

Kosning fór fram um hvort félagsmenn væru með eða á móti áframhaldandi takmörkunum gagnvart Rússlandi.
Meirihluti kaus gegn áframhaldandi takmörkunum með a.m.k. ⅔ atkvæðum fundargesta og mun félagið fella úr gildi takmarkanir gagnvart Rússlandi.


4. Stjórn félagsins leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins

Ársreikningur félagsins var unninn af bókhaldsstofunni Millibil og fóru Laufey Rún Harðardóttir og Thelma Rut Stefánsdóttir stuttlega yfir. Ekki var unnt að samþykkja ársreikninginn vegna fjölda vankanta sem voru fyrir hendi (m.a. upplýsingar ekki rétt settar fram, vantaði kostnaðarliði, óeðlileg sundurliðun á tekjum og útgjöldum). Aðalfundur samþykkti einróma að hafna ársreikningnum og boðað verði til framhaldsfundar þegar hann hefur verið leiðréttur.

5. Ákvörðun félagsgjalda

Umræða fór fram um að hækkun félagsgjalda til að stemma í stigu við verðlagsbreytingar í samfélaginu undanfarin ár. Tillaga kom fram um að hækka félagsgjöld um 500 kr. Verð fyrir einstaklingsaðild verði 5.500 kr. og fjölskylduaðild 7.500 kr.
Tillaga var samþykkt með a.m.k. ⅔ atkvæðum fundargesta. 

6. Lagabreytingar  

Engin lagabreyting var lögð fram.

7. Kosningar til stjórnar

- Helga Karlsdóttir var ein í framboði til formanns og hlaut 28 atkvæði með. Helga Karlsdóttir tekur við formennsku af fráfarandi formanni, Sigurði Ara Tryggvasyni sem hefur verið formaður félagsins sl. 7 ár.

- Tvær voru í framboði í tvær stöður gjaldkera, þær Íris Ebba Ajayi Óskarsdóttir og Elín Arnardóttir. Báðar fengu 28 atkvæði og taka við af fráfarandi gjaldkerum, Ósk Hilmarsdóttir og Thelmu Stefánsdóttir.

- Tvö buðu sig fram í stöðu ritara, þau Arnar Snæbjörnsson og Hanna María Ástvaldsdóttir. Hanna María var kjörin ritari með 15 atkvæði á móti 13 og tekur hún við af fráfarandi ritara, Laufeyju Hansen sem hefur sinnt ritarastörfum og haft umsjón með félagatali sl. 5 ár.

8. Kosningar í embætti tveggja félagslegra skoðunarmanna og eins til vara.

Birna Hrafnsdóttir og Thelma Rut Stefánsdóttir buðu sig fram. Enginn bauð sig fram til vara.

9. Kosning þriggja félagsmanna í aganefnd og tveggja til vara, sbr. þó 41. gr.

Aðilar sem voru kjörnir í Aganefnd: Arnar Snæbjörnsson, Emily Anna Schelvis og Berglind Björnsdóttir.
Til vara: Laufey Stefánsdóttir og Halla María Ástvaldsdóttir.

10. Önnur mál.

- Tillaga kom fram um að félagið bjóði ræktendum sértstakt plagg fyrir viðskiptavini sem kaupa sinn fyrsta kynjakött sem inniheldur upplýsingar um fríðindi sem fylgja kaupunum fyrsta árið (þ.e. ókeypis félagsaðild og frítt á fyrstu sýningu).

- Tillaga kom fram um að færa útgáfu blaðsins yfir á rafrænt form í hagræðingarskyni. Meirihluti fundargesta tók undir með tillögunni og rætt um að stjórn skoði slíka möguleika.

- Ábending kom um að þörf væri á að uppfæra og leiðrétta upplýsingar á heimasíðu Kynjakatta. Undir flipanum “Ábyrg ræktun” koma fram rangar upplýsingar um heilsufarsskoðun fyrir ræktun. Undir flipanum “Kattategundir” vantar inn fjölmargar tegundir og upplýsingar um þær, m.a. BSH, BLH, BML, CRX, DRX, EUR, KBL, NEM, SBI og SIB.

- Rætt var um leiðir til að auka ávinning félagsmanna í félaginu, t.d. fá betri afslætti hjá fyrirtækjum sem höfða til félagsmanna, halda viðburði/fræðslukvöld eða annars konar viðburði ásamt því að finna leiðir til að virkja félagsmenn og sporna gegn brottfalli úr félaginu.

- Umræða um að virkja aftur tegundakynningar í Garðheimum sem hafa ekki farið fram síðan 22-23. október 2022. Stjórn þyrfti að heyra í Garðheimum og upplýsa þá um tímasetningar sem gætu hentað félagsmönnum (þ.e. að þær séu ekki of nálægt sýningarhelgum). Stór meirihluti fundargesta var á sama máli um maí mánuður væri fýsilegur kostur.

- Ábending kom frá félagsmanni um breytingar sem varða verðlaun/viðurkenningar á sýningum, s.s. að fækka aukaverðlaunum eða breyta hvernig dómarar velja/dæma þau án vitundar sýnenda í þeim tilgangi að stytta úrslit. Þá var lagt til að slíkar breytingar skulu teknar fyrir á aðalfundi eða sérstökum félagsfundi þar sem félagsmenn hafa mismunandi sjónarmið á málefninu.