Aðalfundur 2018

Aðalfundur Kynjakatta fór fram laugardaginn 5.maí í Kirkjulundi 17, Garðabæ frá kl.13:00-15:00. Alls sátu 20 manns fundinn.

1. Fundarstjóri og fundarritari kosinn

Tilnefnd og samþykkt voru Sigurður Ari Tryggvason sem fundarstjóri og Lilja Gísladóttir sem fundarritari.

2. Nefndir gera grein fyrir störfum sínum

Sigurður Ari Tryggvason gerði grein fyrir störfum auglýsingarnefndar. Miklar mannabreytingar hafa komið niður á störfum nefndarinnar en með utan að komandi hjálp hefur tekist að selja eitthvað af auglýsingum og ná einhverju upp í kostnaðinn við útgáfu á blaðinu. Æskilegt væri að auglýsingar myndu standa undir kostnaði blaða sem eru útgefin fyrir sýningar.
Helga Karlsdóttir gerði grein fyrir störfum sýningarnefndar.
Enginn kom frá ritnefnd en Jóna sá að mestu um utanumhald og útgáfu blaðanna og ritnefnd o.fl. sendu henni greinar.

2. Ræktunarráð gerir grein fyrir störfum sínum

Helga Karlsdóttir las skýrslu.
Ræktunarráð hafði samskipti gegnum vefpóst þar sem samþykktar voru ættbækur innfluttra katta.

4. Stjórn félagsins gerir grein fyrir störfum sínum

Sigurður Ari Tryggvason las skýrslu stjórnar.

5. Stjórn félagsins leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins

Anna María Moestrup gjaldkeri fór yfir ársreikninginn sem var samþykktur með athugasemdum.
Athugasemd var gerð við texta í ársskýrslu varðandi endurskoðun, Anna María fer yfir textann með bókara. Einnig var gerð athugasemd við heiti liða í skýrslunni, sem verður aðlagað að efni hvers liðs.
Þar sem bókari lenti í slysi og ársskýrslu var ekki skilað til félagsins fyrr en kvöldi fyrir aðalfund, náði félagslegur skoðunarmaður ekki að lesa yfir skýrsluna fyrr en rétt fyrir aðalfundinn.
Rætt var hvort Þórðarsjóður þyrfti ekki að koma fram í skýrslunni, Anna María fer yfir það með bókara. Einnig var rætt um úthlutun úr sjóðunum, þar sem tíðarandinn hefur breyst frá því að sjóðurinn var stofnaður. Umræða myndaðist um hvað ætti að nýta sjóðinn í og stjórn sjóðsins mun í framhaldinu funda um efnið, koma með tillögur og leggja þær fram á næsta fundi félagsins.
Þegar búið er að fara yfir athugasemdir sem komu á fundinum um ársreikninginn verður hann sendur til skoðunarmanna félagsins.

6. Ákvörðum Félagsgjalda

Félagsgjöld haldast óbreytt

7. Lagabreytingar

Engar lagabreytingar voru lagðar fram fyrir aðalfund.

8. Kosningar til stjórnar

Í framboði voru:

Til varaformanns: Helga Karlsdóttir
Til gjaldkera: Anna María Moestrup
Til sýningarstjóra: Jósteinn Snorrason

Birna Hrafnsdóttir bauð sig fram sem ritara á fundinum.  

Frambjóðendur voru samþykktir með a.m.k. 2/3 hluta fundarmanna.

9. Kosningar tveggja félagsmanna til að endurskoða ársreikninga og einn til vara

Arnar Snæbjörnsson
Gísli Guðnason
Til vara: Kristín Hólm

Ofangreind voru samþykkt með a.m.k. 2/3 hluta fundarmanna.

10. Önnur Mál

Farið var yfir nokkrar af tillögum til breytingar á reglum FIFe sem teknar verða fyrir á aðalfundi FIFe sem haldinn verður í Portúgal í lok maí 2018.

Rætt var um staðsetningu sýningarhúsnæðis fyrir næstu sýningu sem verður mögulega í Ásbrú eins og vorsýningin 2018, þar sem aðstaða var til fyrirmyndar.
Til tals kom að reyna að halda sýningu og ná á hana 30 Persum til að dómari í félaginu gæti tekið próf í þessum tegundarhóp. Til að það gangi upp er æskilegt að sýningin sé á höfuðborgarsvæðinu. Málið er í skoðun.

Afslætti fyrir félagsmenn gegn framvísun félagaskírteinis eru ekki sýnilegir á heimasíðu félagsins. Í dag eru í raun engir samningar í gangi og mun auglýsingarnefnd taka málið til skoðunar.

Mæting félagsmanna á aðalfund var rædd á þá leið að þróunin væri ekki í rétta átt og samhliða því væri erfitt að fá félagsmenn til að taka þátt í störfum félagsins.

Rætt var um hvort að stjórn þyrfti að tilkynna ef dómaranemar væru á sýningum. Niðurstaðan var að stjórn ber ekki skylda til að tilkynna það til sýnenda. Fram kemur í reglum FIFe að dómaranemar verði að óska eftir þátttöku í síðasta lagi fjórum vikum fyrir sýningu. Það er hugsað til að sýningarnefnd geti gert ráðstafanir við skipulagningu sýningar.

 

Fundarstjóri sleit fundi kl.15:00.

 

Tengd skjöl: